Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 15:15:41 (4929)

2004-03-04 15:15:41# 130. lþ. 77.5 fundur 520. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég tek undir frv. sem hér er flutt um breytingu á almennum hegningarlögum sem þingmenn Samf. flytja og er Ágúst Ólafur Ágústsson 1. flm.

Ég tek undir, og held að það geri langflestir Íslendingar þó víða væri leitað, að kynferðisafbrot gegn börnum eru alvarlegustu brotin sem framin eru, fyrir utan morð ef maður á að fara að flokka eitthvað sem heitir stigvaxandi og alvarleika brota. Brotin eru þess eðlis, kynferðisleg misnotkun, valdbeiting á börnum, að þau skemma um alla lífstíð. Þau marka spor alla ævi og því yngri sem börnin eru, þeim mun erfiðara eiga þau með að gera sér grein fyrir hvað er að gerast eða hvers eðlis brotið er. Þekkingin og skilningurinn kemur með vaxandi þroska. Þá er upplifunin oft svo sár að atburðurinn eða atburðirnir eru bældir, sem á sérstaklega við ef um nákominn ættingja eða foreldra er að ræða, og sársaukanum er ekki hleypt upp á yfirborðið fyrr en jafnvel mörgum árum síðar. Þetta gerir málið svo erfitt, að þegar viðkomandi loksins, hvort sem það er drengur eða stúlka, það eru miklu frekar stúlkur sem verða fyrir misnotkun en piltar í þjóðfélagi okkar í dag --- þegar sársaukanum er loksins hleypt fram og ef fólk leitar sér á fullorðinsárum hjálpar eða þegar það hefur þroska til, er tíminn, fyrningarfresturinn, útrunninn og erfitt að taka málið upp.

Í allt of mörgum tilfellum hefur viðkomandi ekki náð háum aldri eða er orðinn harðfullorðinn, en er á þeim mörkum að leita sér hjálpar eftir að fimm ára fyrningarfrestinum er náð. Samt er atburðurinn svo nálægur og svo refsiverður, að sannarlega er hægt að taka undir að það verði að endurskoða ákvæðin um fyrningarfrestinn og taka undir með umboðsmanni barna, að afnema algerlega fyrningarfrestinn vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Hann hefur bent á þetta oftar en einu sinni og kom fyrst fram í skýrslu 1997.

Ég tek aftur á móti undir hugrenningar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, að þar sem þetta eru viðkvæm og flókin mál, tilfinningalega flókin mál, er hugsanlegt að líta þurfi til þess á hvaða aldri hinn brotlegi er þegar verknaðurinn er framinn, hvort það eru óþroskaðir unglingar sem beita valdi, eða hvort það eru fullorðnir einstaklingar sem vita mætavel hvað þeir eru að gera. Ég held að rétt sé að vísa þessum ábendingum til hv. allshn. að skoða vel hvort ástæða sé til að setja einhver mörk varðandi aldur geranda, en það sem snýr að þolandanum er þó alltaf hið sama.

Ég vil nefna annað sem snýr kannski ekki beint að frv. sem slíku, en það er alveg ljóst að þeir einstaklingar sem sækja í að hafa kynferðisleg mök við börn eða eiga kynlífsathafnir með þeim, eru sjúkir einstaklingar og þurfa hjálp. Þá hjálp hefur ekki verið auðvelt að fá, enda er ekki auðvelt að lækna. Þar sem það hefur komið meira og meira upp á yfirborðið hvað það eru margir sjúkir einstaklingar sem leita á börn og hafa þessar hvatir, tel ég rétt að hafa það til hliðsjónar í meðferð slíkra mála að auka hjálp við þá einstaklinga sem greinast með slíkar hvatir svo hægt sé að forða því að verknaðurinn verði endurtekinn, því það sýnir sig að þeir sem sækja í að leita á börn gera það aftur nema þeir fái verulega hjálp til að breyta kynlífi sínu.

Ég styð frv. og fyrir hönd okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði þakka ég fyrir að það sé komið fram. Ég tel að við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að í fyrsta lagi vernda börnin og vera vakandi yfir þeim einkennum sem koma fram hjá börnum sem verða fyrir kynferðislegri misbeitingu eða áreitni, því þau gefa frá sér ákveðin merki. Það vantar bara að við skiljum merkin sem eru gefin, þá getum við gripið inn í og stöðvað ferli sem er í gangi. Eins þegar brot er ljóst að hjálp sé að fá og refsingin sé ekki fyrnd, eins og svo oft er þegar tekið er á málum.