Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 15:24:10 (4930)

2004-03-04 15:24:10# 130. lþ. 77.5 fundur 520. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., Flm. ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[15:24]

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni. Ég vil einnig þakka fyrir þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið hjá þeim sem tóku þátt í umræðunni.

Eins og komið hefur fram er markmið lagafrv. að taka tillit til sérstöðu kynferðisafbrota gegn börnum undir 14 ára aldri, eins og ég hef rakið og óþarfi að fara í það aftur. En mig langar aðeins að bregðast við hugleiðingum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Hann nefndi ákveðið jaðartilvik sem er sannarlega rétt að velta fyrir sér. Ég vil svara því þannig að í slíkum málum og í svona málum er sönnun ætíð erfið og hún verður ætíð erfiðari eftir því sem tíminn líður. Við höfum úrræði í dómaframkvæmd, lögum og lagatexta, að tekið er tillit til ungs aldurs afbrotamanns. Það er tekið tillit til aðstæðna þannig að nú þegar er úrræði í lögum sem ég tel vera fullnægjandi fyrir dæmi eins og hv. þm. nefnir til að slíkt mál fái sanngjarna meðferð.

Frumvarpið sem hér er til umræðu snýst í raun um hagsmunamat. Að sjálfsögðu eru rök fyrir fyrningu til staðar. Fyrst og fremst hagkvæmnis- og sanngirnisrök eins og dæmi hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar kom lítillega inn á. Það sem situr meira í mér er að með því að beita almennu hagsmunamati og líta á þá reynslu sem við höfum, t.d. tölfræði frá hagsmunaaðilum eins og Stígamótum, sýnir það að eitthvað er að. Lögin eru ekki í samræmi við þann raunveruleika í ljósi þess að einstaklingar eru að leita sér hjálpar og úrræða talsvert seinna og jafnvel áratugum seinna vegna þessara brota en annarra brota gegn almennum hegningarlögum.

Það er annað sem kallar á þessa breytingu og það eru fyrirliggjandi dómar. Við höfum dóma þar sem einstaklingar hafa verið sýknaðir vegna fyrningar, þrátt fyrir að hafa verið fundnir sekir. Dómstóllinn finnur viðkomandi sekan, en dæmir hann sýknan vegna fyrningar. Slíkir dómar held ég að kalli einnig á að við hugum að breytingum í þessa átt.

Nú þegar hefur löggjafinn í raun tekið þá pólitísku afstöðu að ákveðin afbrot skuli vera ófyrnanleg. Það er því ekki verið að fara á nýjar slóðir hvað það varðar. Þetta er hins vegar spurning um pólitískt mat á þeim hagsmunum sem um er að ræða. Til dæmis eru ítrekuð rán skv. 255. gr. almennra hegningarlaga ófyrnanleg. Ég held að þingheimur allur geti verið sammála um að kynferðisafbrot gegn barni undir 14 ára aldri er alvarlegra en ítrekuð rán, þrátt fyrir að ítrekuð rán séu afskaplega alvarleg í eðli sínu. En svo fremi sem löggjafinn hefur tekið þá afstöðu að sum afbrot skuli vera ófyrnanleg, held ég það sé alveg rakið að við fellum þennan brotaflokk með þeim röksemdum sem koma fram í grg. undir hin svokölluðu ófyrnanlegu brot.

Hagsmunir barna vega einfaldlega þyngra en almennar röksemdir um fyrningu. Það er í rauninni meginkjarni frv.

Í lokin langar mig að taka fram að ég vona svo sannarlega að myndast geti þverpólitísk samstaða um málið. Ég vona og ég ákalla þingheim allan, hvar sem hann er staddur þessa stundina, að láta ekki þetta mál vera eitt af þeim málum sem dagar uppi í nefnd og losnar aldrei þaðan. Það er einfaldlega of mikið í húfi.

Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til allshn. og til 2. umr.