Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 15:49:12 (4935)

2004-03-04 15:49:12# 130. lþ. 77.6 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað dagsetninguna varðar þá má eiginlega segja að auðvitað væri æskilegt ef það væri hægt fyrr. En ég held að þetta sé raunhæft markmið. Gefum okkur að um þetta takist sú pólitíska sátt sem hér er fjallað um, að allir hinir pólitísku flokkar sem mann eiga á Alþingi skipi fulltrúa í nefndina, heilbrrh. skipi formann og þessi þverpólitíska nefnd hefji störf í júníbyrjun 2004, þ.e. ef við mundum ná að samþykkja þetta nú fyrir þinglok. Þá hefur viðkomandi nefnd eitt og hálft ár til að fjalla um og skoða þetta mál. Æskilegt væri ef þetta væri hægt fyrr og vel getur verið að það sé hægt. Ég vil segja að það var geysilega mikið verk unnið, sem er auðvitað undirbúningsverk, af hálfu þeirrar nefndar sem Ingibjörg Pálmadóttir stýrði og í skýrslum sem bæði danskir og sænskir sérfræðingar unnu áður en til sameiningar kom. Ég man nú ekki hvað fyrirtækið hét sem vann fyrir Sjúkrahús Reykjavíkur, mig minnir White eða eitthvað þess háttar. Þeir voru sænskir. Þarna liggur geysilega mikil vinna.

En það tekur líka mjög mikinn tíma að fara í gegnum þessa starfsemi, skoða þetta og ég tala nú ekki um ef, sem ég vona að verði ekki, upp koma mikil skoðanaskipti í þjóðfélaginu, ef svo má að orði komast, um hvort byggja eigi við Hringbraut eða í Fossvogi. Þá mun hin pólitíska nefnd fara í gegnum þessa þætti alla og það er að mínu mati mjög mikil vinna. En ég tek undir með hv. þm. og ég skil vel að hann telji að áfangaálit megi koma fyrr. Það er vegna þess að hann leggur mikla áherslu á málið og veit hvað það er brýnt. Ég er auðvitað þakklátur fyrir það og ég er algjörlega sammála hv. þm. með það.