Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:20:29 (4938)

2004-03-04 16:20:29# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að hrósa hv. þingmanni og meðflutningsmönnum hans fyrir að leggja hér fram nokkuð vel útfært frv. Það er ekki oft sem þingmenn gera slíkt. Það er oftar í öðruvísi formi. Þetta er nokkuð stórt og veigamikið frv. og ber að hrósa þeim fyrir það.

Frv. er samt í eðli sínu ekki mjög flókið. Það snýst fyrst og fremst um að færa eignarhaldið á Ríkisútvarpinu frá ríkinu yfir til annarra aðila með sölu. Hins vegar kemur mér talsvert á óvart að í frv. er þeim sem hugsanlega kunna að kaupa það einhvern tíma í óskilgreindri framtíð, ef þetta verður að lögum, uppálagt hvert skuli vera það efni sem sent verði út, þ.e. það er tilgreint nokkuð ítarlega hvaða efni skuli bjóða út o.s.frv., það skuli vera tilteknir þættir, a.m.k. eins og ég skil frv.

Ég staldra hins vegar aðeins við eignarhaldið, velti því fyrir mér og spyr: Hvað ef t.a.m. Norðurljós einfaldlega bættu við einni sjónvarpsrás og tveimur útvarpsrásum? Fyrir eru þeir með nokkrar sjónvarpsrásir og nokkrar útvarpsrásir. Þá held ég að væri enn frekari samþjöppun á þessum markaði eða hugsa menn þetta þannig að Norðurljós geti ekki keypt Ríkisútvarpið? Er það einhver vörn að veita starfsmönnum 50% forkaupsrétt? Við vitum að þó að menn hafi einhvern forkaupsrétt er ekki hægt að stjórna því hvert hlutabréfin fara í kjölfarið.

Fyrirspurn mín til hv. þingmanns er þessi: Er eitthvað í frv. sem kemur í veg fyrir það að Ríkisútvarpið yrði einfaldlega sameinað Norðurljósum?