Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:22:51 (4939)

2004-03-04 16:22:51# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Það að frv. sé svona ítarlega útfært er vegna þess að flm. hafa trú á því að það kunni að verða samþykkt, a.m.k. hlutar af því, annaðhvort núna eða seinna, eftir eitt eða tvö ár.

Þau verkefni sem talin eru upp eru verkefni útvarpsráðs. Þau eru boðin út til allra. Þar á meðal geta Stöð 2, Skjár 1 og RÚV hf. boðið í. Það getur verið að RÚV hf. vilji sérhæfa sig í vissum þáttum, t.d. gæti RÚV hf. sérhæft sig í barnaefni og fréttum o.s.frv. og mundi bara bjóða í þá þætti. Ég treysti starfsmönnum RÚV fullkomlega til að standa sig í þeirri samkeppni. Ég hef það mikla trú á því starfsfólki.

Og af hverju fá þau forkaupsrétt? Vegna þess að fyrirtækið er aðallega starfsmennirnir, eins og flest önnur fyrirtæki í landinu, kannski öll.

Það hvort Norðurljós geti keypt RÚV, þá er ekkert sem hindrar það. Ekkert, nema náttúrlega takmörkuð fjárráð þeirra aðila. Stöð 2 eða Norðurljós eiga ekki endalausa peninga og ég geri ráð fyrir því að verðið hækki ef þeir ætla að fara að kaupa RÚV.

Starfsmennirnir geta selt þegar þeim sýnist en ég geri ráð fyrir að þeir hafi það mikla trú á sínu eigin fyrirtæki að þeir muni eiga það áfram og það verði frekar erfitt að kaupa það fé af þeim. Meðan allt gengur vel hugsa ég að verðið þurfi að vera ansi hátt sem Norðurljós bjóða og það geti alveg eins verið skynsamlegt fyrir þá að bæta við einni sjónvarpsstöð í viðbót.