Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:56:49 (4948)

2004-03-04 16:56:49# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vék að trúverðugleikanum og hæfi ríkisins til þess að eiga og reka fjölmiðil.

Ég held að ég hafi ekki sagt það í ræðu minni að ríkið væri algjörlega vonlaus eigandi og rekandi fjölmiðils. Ég tók það hins vegar fram og út á það gekk ræða mín að það væri ekki hlutverk ríkisins að standa í slíkum rekstri.

Hvað trúverðugleikann varðar tel ég að starfsmenn einkaaðila geti alveg verið jafntrúverðugir í fréttaflutningi sínum, hlutlausir og sanngjarnir og ríkisstarfsmenn. Þetta er allt venjulegt fólk sem hefur sömu kosti og galla og vinnubrögð þeirra eiga ekki að snúast um það, ef menn taka sig alvarlega í starfi, hver vinnuveitandi þeirra sé.

En ég verð að leiðrétta hv. þm. þegar hann talaði um að fréttastofur Ríkisútvarpsins og -sjónvarpsins stæðu langt upp úr hvað varðar trúverðugleika fréttastofa. Í nýlegri könnun fyrir einhverju síðan kom í ljós að trúverðugleiki þeirrar fréttastofu hefði dregist saman, hann hefði minnkað.

Ég verð að benda hv. þm. á að ég man ekki betur en að í mjög mörgum könnunum á trúverðugleika fréttastofa hafi fréttastofa og ritstjórn Morgunblaðsins þótt hvað trúðverðugust af þeim ritstjórnum sem starfa á Íslandi í dag. Ég veit ekki betur en að Morgunblaðið sé í eigu einkaaðila þannig að þetta þarf ekkert endilega að haldast í hendur, eignarhald ríkisins og trúverðugleiki starfsmanna.