Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 17:00:20 (4950)

2004-03-04 17:00:20# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekkert að draga úr því að það er ágætisfólk sem vinnur hjá sjónvarpinu og útvarpinu og margir góðir starfsmenn þar sem standa sig vel og eru trúverðugir. Svo er náttúrlega spurning: Hvað er trúverðugleiki og í hverju felst hann? Við þekkjum það að upp hafa komið stór mál þar sem Ríkisútvarpið hefur ekki verið á staðnum eða staðið á verði. Ferskustu dæmin í því sambandi eru t.d. fréttaflutningur af Suðurlandsskjálftanum. Hvar var Ríkisútvarpið um árið í snjóflóðunum fyrir vestan? Þar voru einkaaðilar fyrstir á staðinn og fyrstir til þess að flytja fréttirnar. Segir þetta ekki eitthvað um trúverðugleika og vinnubrögð einstakra fréttastofa?

Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan að ég hygg að ritstjórn Morgunblaðsins hafi a.m.k. hoggið mjög nærri trúverðugleika ríkisfjölmiðlanna í þeim könnunum sem hér eru gerðar að umtalsefni. Það að ríkið eigi þessa fjölmiðla þarf ekki að haldast í hendur við trúverðugleikann, alls ekki.

Nefna mætti fleiri dæmi um það að starfsmönnum fréttastofu Ríkisútvarpsins hafi orðið á. Maður kannast t.d. við það sjálfur að hafa orðið fyrir árásum á fréttastofu útvarpsins af hálfu hagsmunasamtaka og hafa þurft sjálfur sérstaklega, sem þingmaður, að bera sig eftir því að fá að bera hönd fyrir höfuð sér á sömu útvarpsstöð daginn eftir. Eru þetta trúverðug vinnubrögð? Mér finnst það ekki.

En ég ítreka það að einkaaðilum er alveg eins treystandi fyrir rekstri fréttastöðva og við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því, verði breyting á eignarhaldinu, að sá trúverðugleiki verði fyrir borð borinn.