Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 17:16:18 (4953)

2004-03-04 17:16:18# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki orðað hugsun mína nægilega skýrt áðan. Það sem ég var að fjalla um var að á þeim tíma er Ríkisútvarpið kom til sögunnar voru þau sjónarmið uppi, bæði hér á landi og annars staðar í hinum vestræna heimi, að ríkið hefði töluvert viðamiklu hlutverki að gegna á öllum sviðum samfélagsins. Þetta sjónarmið var ráðandi hér. Stofnaðar voru ríkisverksmiðjur og ríkiseinkasölur og ríkið kom inn á mjög mörgum sviðum, bæði tók það við starfsemi sem áður hafði verið í höndum einkaaðila og eins hafði ríkið forgöngu um og stofnaði til starfsemi sem áður var óþekkt.

Hið sama var upp á teningnum annars staðar. Þessar stofnanir sem hv. þm. Jón Kr. Óskarsson vitnaði til voru vissulega stofnaðar um svipað leyti og voru og eru ríkisstofnanir eins og við þekkjum hér á landi. Orð mín mátti ekki skilja sem svo að það fyrirkomulag sem við búum við í dag væri óþekkt.

Það sem ég sagði hins vegar að væri óþekkt, bæði hér á landi og í þeim löndum sem við berum okkur saman við, er ríkisrekstur á dagblaðasviðinu sem lýtur að sumu leyti svipuðum lögmálum en að öðru leyti öðrum lögmálum en ljósvakareksturinn. Í báðum tilvikum er um að ræða fjölmiðlastarfsemi og í báðum tilvikum tel ég að einkaaðilar geti verið virkir og góðir rekstraraðilar.

Ástæðan fyrir því að fjölmiðlamarkaðurinn er svo mismunandi eftir miðlum, er að það var ríkisrekstur á útvarpssviðinu, á sér sögulegar forsendur fyrst og fremst. Dagblaðamarkaðurinn er eldri og mótaðist á tímum þar sem ríkisforsjá og ríkisumsvif voru miklu síður á dagskrá í vestrænum þjóðfélögum en síðar varð.