Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 17:18:43 (4954)

2004-03-04 17:18:43# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóni Kr. Óskarssyni þegar hann sagði að það hefði komið fram í umræðunni fyrr að þetta þekktist ekki á Vesturlöndum, að ríkið stæði í fjölmiðlarekstri. Hins vegar hefur það verið dregið til baka og vitaskuld vitum við allir, hv. þingmenn sem hér erum, betur. Þetta hefur kannski verið sagt í hita leiksins.

Hitt er hins vegar veruleiki sem við búum við, að fyrir íslenskt samfélag og lýðræðið er gríðarlega mikilvægt að hér séu starfandi öflugir fjölmiðlar. Það er í raun forsenda þess að lýðræðið virki, forsenda þess að skoðanir heyrist og almenn skoðanaskipti fari fram í samfélaginu. Þess vegna eru þetta geysilega viðkvæm mál. Við höfum orðið vör við það í samfélaginu undanfarið að margir hafa áhyggjur af íslenskum fjölmiðlamarkaði og eignarhaldi á íslenskum fjölmiðlum. Þó að ég varpaði meira í gamni en alvöru fram þeirri hugmynd að það væri hugsanlegt að sameina tiltekin fyrirtæki þá breytir það ekki því að mjög erfitt yrði að koma í veg fyrir að ýmsir aðilar gætu komist til áhrifa, þó að ekki yrði um sérstakan samruna að ræða. Það er líklega nokkuð sem umrædd fjölmiðlanefnd er einmitt að skoða núna.

Ég vildi einnig halda því til haga í umræðunni að sú hugmynd sem hér liggur fyrir gengur út á að afnema afnotagjöldin en á móti að lækka persónuafsláttinn um 1.000 kr. til þess að ná inn sömu fjárhæð. Ég vildi bara koma þessu að þar sem mér fannst umræðan ganga út á að í þessu fælist skattafsláttur. En hugmyndin er sú að innheimta sömu fjárhæð með öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt að þetta sé klárt í þessari umræðu.