Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 17:21:01 (4955)

2004-03-04 17:21:01# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hér hafi ekki verið haldið fram neinum sjónarmiðum sem hafi verið dregin til baka varðandi stöðuna á þessu sviði annars staðar. Ég held hins vegar að öllum sé ljóst hvað við var átt. Enginn hélt því að fram að ríkisfjölmiðlar í öðrum löndum væru ekki til heldur var um að ræða ákveðna sögulega skýringu á því hvers vegna við stöndum frammi fyrir öðru umhverfi á þessu sviði en t.d. á dagblaðamarkaðnum.

Það er rétt sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom inn á, að þetta er viðkvæmt svið. Þess vegna hefur m.a. verið til skoðunar hvort bæri að setja sérreglur sem snertu þennan markað sem væru á einhvern hátt til fyllingar eða ítarlegri en þau almennu ákvæði sem er að finna í samkeppnislögum. Af hálfu einstakra flokka eða ríkisstjórnar hefur ekki verið tekin nein afstaða til þess, enda er nefnd að störfum sem fer yfir það svið og veltir upp sjónarmiðum í því efni. Hins vegar kunna að vera rök fyrir því að í gildi séu sérreglur um þennan markað til að koma í veg fyrir samruna, hringamyndun og óeðlilega mikla samþjöppun á því valdi sem felst í eignarhaldi á fjölmiðlum.

Varðandi þann þátt sem hv. þm. kom inn á varðandi afnotagjöldin er rétt að gert er ráð fyrir því í frv. að ríkissjóður verði jafn vel settur, þ.e. að tryggt sé með framlagningu þessa frv. að inn komi fjármögnun á móti þeirri fjármögnun sem dettur niður með afnámi afnotagjaldanna. Það er alveg rétt enda er frv. mikið málamiðlunarfrumvarp á mörgum sviðum.