2004-03-08 15:07:46# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Össur Skarphéðinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil strax í upphafi máls míns lýsa því yfir að Samf. styður þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin hefur gefið gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Við teljum að ríkisstjórnin hafi gert rétt í því að liðka með þessum hætti til svo hægt verði að ljúka kjarasamningum farsællega. Samf. mun líka fyrir sitt leyti greiða fyrir því að þær breytingar sem þurfa að fara í gegnum þingið gangi hratt fyrir sig. Við höfum lýst því yfir að það skipti miklu máli að ná kjarasamningum, og til langs tíma. Kjarasamningar eru forsenda stöðugleika. Stöðugleiki er forsenda vaxtar. Við þurfum á vexti að halda. Ef það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefur ekki náð í jafnríkum mæli og hún skapaði væntingar um í kosningabaráttunni er það einmitt atvinnustigið í landinu.

Við búum í dag við allt of mikið atvinnuleysi. Það er 3,5% atvinnuleysi og það er heldur að aukast en hitt. Það er sorglegt að ungt fólk er í vaxandi mæli í röðum þeirra sem ekki fá atvinnu og því miður er ungt fólk líka í röðum þeirra sem eru lengi atvinnulausir.

Á baráttudegi kvenna, 8. mars, þykir mér líka við hæfi að vekja eftirtekt á því að atvinnuleysi meðal kvenna er að aukast og ef það er eitthvað sem ríkisstjórnin hefði líka átt að gera til viðbótar við þær aðgerðir sem hún hefur lýst yfir er það einmitt að ráðast í sérstakt átak til að bæta atvinnustig kvenna. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann telji ekki við hæfi á þessum degi að gefa yfirlýsingu um slíkt. Er það ekki í anda þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin er að beita sér fyrir?

Það sem er sérlega gleðilegt við þessa kjarasamninga er að þeir sem hafa lægst launin fá mesta hækkun. Þeir hækka strax upp í 100 þús. kr. og eiga síðan að fá jafnmiklar hlutfallshækkanir og aðrir. Þetta er sannarlega gleðiefni og það er í anda þeirra markmiða sem við jafnaðarmenn vinnum eftir. Ég vek eftirtekt á því að ríkisstjórn boðar hækkun atvinnuleysisbóta og það er sömuleiðis í þeim anda sem við í stjórnarandstöðunni höfum unnið eftir. Við höfum kallað eftir hækkun atvinnuleysisbóta. Samt sem áður er það staðreynd að þessi hækkun sem núna fyrsta kastið verður upp í tæpar 89 þús. kr. er of lítil. Enginn lifir af 89 þús. kr. og enginn sem þarf að vera lengi atvinnulaus getur dregið fram lífið með mannsæmandi hætti á þeim peningum. Þess vegna er nauðsynlegt að berjast fyrir því að þetta aukist.

Ég fagna sérstaklega þeim áfanga sem næst að því er varðar jöfnun lífeyrisréttinda. Það er eitt af því sem Samf. hefur barist fyrir. Það má auðvitað geta þess að hluti af lífeyrisbótunum sem núna koma fram felst í því að tryggingagjald verður lækkað um 0,45% gegn því að atvinnurekendur hækki sínar greiðslur í sameiginlega sjóði upp í 8%. Það verður að geta þess að við í stjórnarandstöðunni vorum að slást við ríkisstjórnina hálft haustið einmitt vegna þess að hún vildi falla frá svipuðu framlagi, að vísu í séreignarlífeyrissjóði. Þarna má líta svo á að hún hafi ekki daufheyrst eða skellt skollaeyrum við því sem verkalýðshreyfingin og við í stjórnarandstöðunni vorum að tala um.

Sömuleiðis fagna ég því að það er verið að tryggja framlög úr Atvinnuleysistryggingasjóði í starfsmenntasjóði fram til ársins 2007. Það skiptir máli að fólk í atvinnulífinu, sérstaklega það sem er illa launað, eigi kost á starfsmenntun til að þjálfa sig betur og auka færni sína á vinnumarkaði. Þá hlýt ég að vekja eftirtekt á því að mörgum þeirra sem falla undir samninga ASÍ og eru í hlutastörfum eru meinuð einmitt ákveðin réttindi sem tengjast því að auka færni sína. Hæstv. fjmrh. hafði í síðustu viku frumkvæði að því af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að hægt yrði að samþykkja lög um slíkt. Málið hefur ekki farið í gegn og ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því á síðustu stigum þess máls að því verði breytt.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. forsrh. talar um skattalækkanir. Almenningi var lofað skattalækkunum upp á 25 milljarða þegar samningarnir væru frá. Hvenær verður staðið við þau loforð? Mun hæstv. forsrh. lækka virðisaukaskatt á mat eins og Samf., Sjálfstfl. og fleiri flokkar eru sammála um að vilja gera?