Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:33:45 (4965)

2004-03-08 15:33:45# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:33]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég held að mikið hugmyndaflug þurfi til þess að áætla sem svo eða draga þær ályktanir af því bréfi sem sent var skólameisturum framhaldsskólanna að þeir komi til með að standa frammi fyrir fjöldatakmörkunum. Það er síður en svo. Ástæðan fyrir þessu bréfi er fyrst og fremst sú að það hefur verið vinnuregla í ráðuneytinu að eftir að fjárlög hafa verið afgreidd er skólameisturum og rektorum framhaldsskólanna í landinu sent bréf þar sem kveðið er á um þau nemendaígildi sem þeir hafa úr að spila sem eru í samræmi við fjárlög. Það er auðvitað eðlilegt og í samhengi við það fjárstjórnarvald sem Alþingi hefur.

Síðan ef við skoðum þá ánægjulegu þróun sem verið hefur í þeirri miklu menntasókn sem við höfum staðið fyrir á undanförnum árum, þá sjáum við gríðarlega fjölgun og ekki bara á háskólastiginu. Við erum einmitt búin að sjá 43% fjölgun nemenda á háskólastiginu frá árinu 2000 og fjárframlög aukin um 50%. Það sama gildir um framhaldsskólann að þar er um gríðarlega ásókn að ræða og það er fagnaðarefni. Hvernig höfum við í ráðuneytinu svo afgreitt þennan fjölda sem hefur í rauninni aukist umfram það sem kveðið er á um í fjárlögum varðandi nemendaígildi? Við höfum farið vandlega yfir þetta í góðu samráði og samvinnu við skólameistara viðkomandi skóla. Við höfum einfaldlega skoðað hvert tilvik fyrir sig og það hefur aldrei orðið svo að við höfum ekki getað komið til móts við þann aukna fjölda sem skólarnir hafa síðan staðið frammi fyrir að þurfa að taka. Þetta höfum við gert á Suðurnesjum og þetta höfum við m.a. gert við Menntaskólann á Ísafirði þar sem nemendum fjölgaði upp í 270 á árinu 2003 þegar gert var ráð fyrir mun lægri tölu. Að sjálfsögðu komum við til móts við þetta þegar við sáum að það voru raunhæf markmið og eðlileg fjölgun sem þarna átti sér stað. Ég tel þetta vera storm í vatnsglasi. Við ætlum okkur hér eftir sem hingað til að halda áfram að fjölga nemum í framhaldsskólum og stuðla að öflugri framhaldsskólauppbyggingu hér á landi. Það sama gildir að sjálfsögðu um Menntaskólann á Ísafirði.