Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:47:28 (4972)

2004-03-08 15:47:28# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Málatilbúnaðurinn hér minnir óneitanlega á þekkta sögu af manni sem varð fyrir því óláni að það sprakk hjá honum. Hann vantaði tjakk og þurfti að ganga langa leið til að fá lánaðan tjakk. Þetta er þekkt saga. Maðurinn var búinn að sefja sig upp í mikla reiði þegar hann kom á næsta bæ. Þannig finnst mér málflutningur hv. stjórnarandstöðu vera.

Um hvað snýst þetta mál? Það snýst um að sett eru fjárlög og það að sá sem stýrir fjármálaskrifstofu menntmrn. bendir embættismönnum á að fjárlög skammti fé. Þannig hefur það ávallt verið. Sjálfur starfaði ég í tíu ár sem skólameistari. Á hverju einasta ári var það með með þessum hætti. Þegar það gerðist síðan að nemendafjöldi fór fram úr því sem áætlað var settust menn niður og sömdu við menntmrn. um inntöku nemenda. Það gekk eftir og um það snýst þetta mál. Þetta er með öðrum orðum stormur í vatnsglasi. Það liggur fyrir skýr yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. um að hér sé ekki verið að innleiða neinar takmarkanir á neinn hátt. Hér verða nemendur, nú sem fyrr, teknir inn í framhaldsskóla. Ég spyr: Í hverju felst þessi hávaði hv. stjórnarandstöðu?