2004-03-08 16:23:09# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er flutt frv. til laga um breytingu á lögum um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Verið er að leggja til að stjórn stofnunarinnar verði lögð niður og sé það í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að taka út stjórnir þeirra stofnana þar sem forstöðumenn eru gerðir ábyrgir fyrir stjórnun og rekstri og heyra beint undir ráðherra.

Ég tek undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar, í fyrsta lagi um að nauðsynlegt sé að gera greinarmun á því hvort við erum að tala um stofnanir sem eru hreinar stjórnsýslustofnanir eða stofnanir sem eru, eins og þessi, rannsókna- og vísindastofnanir. Ég tel að þarna megi gera mikinn greinarmun á þar sem eðli stofnananna er mismunandi, ég tala nú ekki um þegar stofnunin er ekki stærri en þessi en hefur svona óskaplega víðfeðmt og opið starfssvið eins og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Um hana segir í lögunum, með leyfi forseta, að hún skuli:

,,a. safna og miðla upplýsingum um málefni norðurslóða,

b. stuðla að því að umhverfisrannsóknir á norðurslóðum séu samræmdar og gera tillögur um forgangsröð þeirra,

c. miðla fræðslu um málefni norðurslóða til skóla og almennings,

d. vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun,

e. annast samstarf við sambærilegar stofnanir erlendis, t.d. um rekstur fjölþjóðlegra verkefna,

f. skapa aðstöðu fyrir fræðimenn sem stunda rannsóknarstörf á fræðasviði stofnunarinnar og

g. sinna öðrum verkefnum samkvæmt ákvörðun sitjandi ráðherra``.

Ég tel að svið þessarar stofnunar sé svo víðfeðmt að nauðsynlegt sé að hafa innan hennar ráðgefandi stjórn sem fjallar um stefnu og starfsáætlanir, hvar áherslan eigi að vera næstu árin eða hvaða ný málefni eigi að taka upp. Þessi stofnun, eins og aðrar, hefur sinn fjárhagsramma og það er ekki hægt að gera allt sem hugurinn stendur til. Ég tel að í raun og veru sé nauðsynlegt að hafa þriggja manna stjórn sem hafi áfram sama hlutverk og hún hefur í dag, að fjalla um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar. Forstöðumaðurinn er eftir sem áður jafnábyrgur, ábyrgur gagnvart ráðherra, en hvort stjórnin verði þá áfram skipuð með sama hætti og er í núgildandi lögum skal ég ekkert segja um en ég tel nauðsynlegt að hafa tengingu frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar yfir í samvinnunefndina eins og er í núverandi stjórn. Það er bara bráðnauðsynlegt.

Eitt er að hafa, eins og er í dag, leiðbeinandi reglur fyrir ráðherra til að taka út stjórnir stofnana vegna ábyrgðar forstöðumanna. Ég tel að prinsippákvæði þurfi að skoða með tilliti til þess hvaða stofnanir eiga í hlut. Hér eru nefnd til viðmiðunar heilbrigðiseftirlitið, Landmælingar Íslands og Brunavarnir. Þetta eru allt stjórnsýslustofnanir sem hafa mjög skýrt og afmarkað starfssvið sem er allt annað en Stofnun Vilhjálms Stefánssonar.

Ég hef allan fyrirvara við þetta frv. og tel að það þurfi að skoða mjög vandlega. Það er ekki verið að tala um neinn sparnað hérna. Kostnaður af þessari stjórn hefur verið óverulegur. Hvergi hefur komið fram að hún hafi þvælst fyrir stjórnvaldsákvörðunum eða á einhvern hátt verið til trafala. Það hefur hvergi komið annað fram en að hún vinni samkvæmt þeim lögum sem henni er ætlað að vinna eftir. Verkefnið er víðfeðmt, fjármagnið takmarkað og það verða að vera ákveðnar áherslur. Þær breytast frá ári til árs og þá er bráðnauðsynlegt að hafa svona ráðgefandi stjórn.

Ég hvet hv. umhvn. til að skoða þetta vel og meta hvort nokkur ástæða sé til að leggja þessa stjórn niður eins og margar aðrar sem verið er að leggja af. Ég tel að á sumum sviðum, og þá vísa ég inn á svið hæstv. heilbrrh., séu menn þegar farnir að sjá eftir stjórnum sem þar hafa verið lagðar af.