2004-03-08 16:29:47# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er að leggja til að stjórn stofnunarinnar verði lögð niður. Að sumu leyti er frv. í takt við þá þróun sem verið hefur undanfarin ár í stjórnsýslunni þar sem Alþingi hefur lagt niður ýmsar stjórnir og breytt verkefnum þeirra sumra sem eftir standa þannig að þróunin hefur verið sú að forstöðumenn stofnana hafa fengið aukin verkefni og forræði yfir stofnununum, sérstaklega eftir að lögin um réttindi og skyldur voru samþykkt hér árið 1997. Annars vegar hafa sem sé forstöðumenn öðlast aukinn styrk í stjórnsýslunni og hins vegar hefur ráðherra á viðkomandi málasviði haft beinni yfirráð yfir viðkomandi stofnun en áður var.

Ég er dálítið hugsi yfir þessari þróun þó að ég hafi að sumu leyti stutt hana, a.m.k. sumt í henni. Ég vil minna sérstaklega á breytingar sem hér voru gerðar á lögum um heilbrigðisstofnanir en um nokkurra ára skeið var til umfjöllunar í þinginu að leggja niður stjórnir heilsugæslustöðva og var að lokum gert svo fyrir ekki svo löngu síðan. Ég er farinn að hafa verulega efasemdir um að við séum að stíga rétt skref sem almenna stefnumörkun. Það er greinilegt að valdið í opinberri stjórnsýslu sem annars staðar er vandmeðfarið og ég þykist sjá það í mörgum tilvikum að forstöðumenn ríkisstofnana skortir aðhald sem þeir áður fengu frá stjórnum sem sátu við stofnunina jafnvel þótt viðkomandi stjórn hefði ekki beint boðvald yfir þeim forstöðumönnum í öllum málum, t.d. starfsmannamálum. Ég er því farinn að hafa efasemdir um þessa stefnumörkun, þessa hreinlínuaðskilnaðarstefnu innan framkvæmdarvaldsins og sérstaklega um það að ýta löggjafarvaldinu þaðan út. Út af fyrir sig má hafa um það mörg orð. Við ræddum það m.a. í síðustu viku í tengslum við annað þingmál um breytingar á stjórnskipan Íslands sem er frv. sem ég flyt og fer nú til meðferðar í nefnd.

Ég vil svolítið ræða um þetta mál á forsendum þess hvaða prinsipp menn vilja viðhafa við stjórnsýsluna og hvert hlutverk stjórnmálaflokkanna eigi að vera. Mér finnst það ekki vera eðlileg þróun að menn umgangist stjórnmálaflokkana eins og óhreinu börnin hennar Evu og vilji sem minnst af þeim vita og sem óvíðast finna þeim stað til þess að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem stjórnmálaflokkarnir taka upp. Ég tel að menn verði að gera ráð fyrir því að stjórnmálaflokkarnir eru kjölfestan í lýðræðislegu fyrirkomulagi landsmanna og þess vegna er eðlilegt að í gegnum þá starfsemi sé farvegur til þess að hafa áhrif á störf og stefnu ýmissa opinberra stofnana. Það fer þó dálítið eftir því hvers eðlis stofnunin er og umfang. Það getur verið örlítið breytilegt frá einu málasviði til annars. En í meginatriðum er það skoðun mín að ég tel að menn séu að fara í ranga átt. Við eigum ekki að þurrka út úr lagasafninu aðkomu stjórnmálaflokkanna að framkvæmdarvaldinu. Það dugar ekki að það sé eitt og sér í gegnum ráðherrana. Þeir auðvitað koma og fara en stjórnmálaflokkarnir eru ávallt til staðar. Þeir sem eru við völd eða í stjórnarandstöðu á hverjum tíma eiga auðvitað að geta haft aðkomu að þessum málum og beitt sér fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir vilja taka upp á sviði viðkomandi stofnunar og þannig haft áhrif á framvindu mála. Mér finnst ekki nægjanlegt að eini aðilinn sem geti sett fram sjónarmið sem heyra undir tiltekna stofnun sé ráðherrann. Mér finnst það ekki nægjanlegt. Ráðherrann er auðvitað þungavigtarmaður og hlýtur eðlilega að hafa mest að segja. En mér finnst ekki eðlilegt að hann sé eini aðilinn sem kemur úr hreyfingu stjórnmálamanna sem hafi aðkomu að þessum málum.

Þetta vil ég segja almennt um málið og þetta er almenn afstaða mín og þess vegna er ég ekki stuðningsmaður þessa frv. Ég er andvígur því að ganga lengra á þessari braut að fella niður stjórnir nema að vera kunni í afmörkuðum tilvikum sem mér finnst réttlætanlegt að gera það. Það kann að vera því að málefnin eru ekki öll nákvæmlega eins. En almennt finnst mér þessi stefna sem uppi hefur verið, ekki bara hjá umhvrh. heldur fleiri ráðuneytum --- og þetta tengist að mínu viti fyrst og fremst stefnubreytingu sem verður með lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þegar forstöðumenn ríkisstofnana ná feiknarlega sterkri stöðu langt umfram það sem þeir höfðu lengi áður haft.

Ég held að við þurfum bara að ræða þetta í Alþingi og átta okkur á því hvernig við viljum leggja línurnar í þessum efnum almennt. Þess vegna vil ég vekja athygli á þessu sjónarmiði til að koma því að í umræðunni.

Ef við skoðum þessa stofnun sérstaklega þá er hlutverk stjórnar Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar þannig að hún fjallar um stefnu og starfsáætlanir stofnunarinnar. Forstöðumaður stýrir í raun og veru stofnuninni. Hann fer með daglega stjórn og hefur umsjón með rekstri þannig að hann sér um mannahald og tekur aðrar slíkar ákvarðanir og stjórnin hefur engu hlutverki að gegna í þeim efnum. Stjórnin hins vegar, samkvæmt gildandi lögum, fjallar um pólitíkina, um stefnuna og starfsáætlanir, og það er eðlilegt hlutverk stjórnmálamanna að koma að því. Mér finnst eðlilegt að hafa þetta hlutverk svona. Ég skal ekki segja hvort það sé eðlilegt að forstöðumaðurinn einn ráði öðrum hlutum til lengri tíma. Ég vil ekkert útiloka að það kunni að vera réttlætanlegt að breyta því fyrirkomulagi þannig að stjórn hafi meira hlutverki að gegna í rekstri en nú tíðkast. En a.m.k. finnst mér eðlilegt að stjórn hafi því hlutverki að gegna yfir stofnun eins og þessari að geta sett fram skoðanir og markað stefnu. Mér finnst það eðlilegt.

Mig vantar eiginlega forsendur fyrir því að réttlætanlegt sé að fella niður stjórnina sem hefur þetta starfssvið. Það truflar á engan hátt starf forstöðumannsins þó að stjórnin sé til staðar. Ég hef rætt við forstöðumanninn og spurt hann út í það hvaða vandkvæði hafi verið uppi í starfsemi stofnunarinnar með þessu fyrirkomulagi og hann segir: ,,Ekkert. Ég tel engin vandkvæði hafa verið uppi.`` Og hann segir mér: ,,Ég vil að stjórnin verði áfram til.`` Þess vegna held ég að við þurfum að hugleiða þetta mál mjög vandlega, hvort rétt sé að fella þessa stjórn niður.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, vekja athygli á því að starfstími fráfarandi stjórnar eða umboð hennar rann út í nóvember 2001. Hvernig má það vera að í rúm tvö ár hafi ekkert gerst, að engin stjórn hafi verið skipuð? Mér finnst að hæstv. umhvrh. verði að gefa þinginu skýr svör við því hvað valdi því að ekki var skipuð ný stjórn. Það er svo mælt fyrir um í lögum. Ég ætlast til þess af ráðherrum, hvort sem þeir eru í ríkisstjórn sem ég styð eða ekki, að þeir fari að lögum.

Ég geng því eftir því, herra forseti, að gefnar verði skýringar á því hvers vegna ný stjórn hefur ekki verið skipuð yfir þessari stofnun.

Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna, herra forseti, til þess að gera grein fyrir almennum sjónarmiðum mínum til þessa máls sem auðvitað skýra hvers vegna ég tek þá afstöðu til frv. sem raun ber vitni.