Lokafjárlög 2001

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:03:13 (4985)

2004-03-08 17:03:13# 130. lþ. 78.9 fundur 653. mál: #A lokafjárlög 2001# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2001, og er rétt að vekja athygli á því að við erum stödd á árinu 2004 að ræða frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2001. Það má segja að þetta sé þriðja og síðasta stig fjárlaganna sem hér er til umfjöllunar fyrir árið 2001, því áður höfum við samþykkt fjárlög og fjáraukalög fyrir árið 2001. Nú er því raunverulega komið að lokaafgreiðslu.

Það er athyglisvert, þegar hæstv. fjmrh. vitnar til laga um fjárreiður ríkisins, að rifja upp hvað segir í 45. gr. þeirra laga, með leyfi forseta:

,,Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar.``

Herra forseti. Ríkisreikningur hefur verið lagður fram reglulega á Alþingi, eins og gert er ráð fyrir í 45. gr. Ríkisreikningur fyrir árið 2001 var lagður fram ári síðar, seinni part ársins 2002, eins og eðlilegt er. En því miður fylgdi frv. til lokafjárlaga ekki, eins og segir í greininni, og þar með hefur hann ekki verið staðfestur.

Til enn frekari upprifjunar er rétt að geta þess að á fundi fjárln. á morgun verður fjallað um frv. til lokafjárlaga ársins 2000. Við höfum því miður verið að dragast aftur úr og mér finnst nauðsynlegt að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir því hvernig á því stendur að þessi dráttur hefur á orðið, en lokafjárlög fyrir árin 1998 og 1999 voru samþykkt í aprílmánuði ársins 2002, og talið að þar með mundu menn ná aftur að vera með þetta á eðlilegum tíma þannig að að hausti ársins 2002 hefði verið fjallað um lokafjárlög ársins 2000 um leið og ríkisreikningur ársins 2000 kæmi fram.

Svo var ekki og lokafjárlög ársins 2000 voru lögð fram á Alþingi þann 12. mars 2003 þrátt fyrir að ríkisreikningur hefði verið lagður fram haustinu áður. Síðan voru lokafjárlög fyrir árið 2000 aftur lögð fram rétt fyrir jól og eins og ég sagði áðan verður um þau fjallað í fjárln. í fyrramálið.

Þetta er auðvitað ekki nógu gott vinnulag og vonandi að það náist sem sett er fram í athugasemdum með frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2001, að leggja fram lokafjárlagafrv. fyrir árið 2002 á vordögum. Vonandi verðum við komin í þann fasa á haustdögum að við uppfyllum 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan held ég að nauðsynlegt sé að hæstv. ráðherra geri þingheimi grein fyrir því hvað valdið hefur því að þetta hefur safnast upp á þennan hátt. Það er ótækt að svo langur tími líði á milli ríkisreiknings og lokafjárlaga vegna þess, eins og kom fram við upplestur minn úr greininni áðan, að lokafjárlög eru til þess m.a. að staðfesta ríkisreikning.

Það er líka vandamál að ekki sé fjallað um þessi mál nær þeim tímapunkti þegar það ár er liðið sem um er fjallað. Við getum t.d. horft til þeirra rekstrarvandræða sem upp koma í ýmsum stofnunum ríkisins, sem þar af leiðandi er ýtt fram fyrir sig og ekki tekið á og safnast upp vegna þess að það liggja ekki nægar upplýsingar fyrir þegar verið er að vinna fjárlög næsta árs á eftir, sem væri eðlilegt að menn hefðu fyrir framan sig þegar frá væri gengið.

Það þarf einnig að skoða nákvæmlega það sem er á margan hátt sjálfvirkt í færslum, þ.e. þegar verið er að færa heimildir á milli ára sem ekki hafa verið nýttar og eins halla sem upp hefur safnast. Það þarf auðvitað að meta það hverju sinni og ákveðnar viðmiðunarreglur sem hér eru, en ég tel að það þyrfti að leggjast betur yfir það og að það væri ekki eins sjálfvirkt og það er að sumu leyti núna.

Ég nefndi áðan að þegar rekstrarvandi á sér stað er auðvitað ótækt að ekki sé gripið í taumana fyrr en hann er raunverulega orðinn óviðráðanlegur. Það er því eðlilegt að um hver áramót sé þetta skoðað alveg sérstaklega. Einnig tengist þetta gerð fjárlaga, og ég veit að hæstv. ráðherra hefur það á prjónunum að vinna betur að því að menn horfi lengra fram á við þegar menn gera fjárlög og geri áætlanir nokkur ár fram í tímann. Það er ekki síður þá sem nauðsynlegt er að uppgjöri áranna þar á undan sé algjörlega lokið.

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að fara í miklar efnislegar umræður um frv. enda verður það skoðað og yfirfarið í fjárln. og frv. er þess eðlis að það er ekki, eigum við að segja, mjög umræðuvænt sem slíkt.

En rétt er að fagna alveg sérstaklega því sem fram kemur í athugasemdum við frv. á bls. 66. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,... þar sem rétt þykir að kynna það mál sérstaklega fyrir fjárlaganefnd og fá um það umfjöllun.``

Það er auðvitað mjög til fyrirmyndar að fjmrn. telji ástæðu til að kynna ákveðin mál fyrir fjárln. og fá sérstaklega um þau umfjöllun, því það verður að segjast eins og er að því miður hefur á stundum skort nokkuð á að þessi eðlilegu tengsl væru á milli ráðuneytisins og fjárln. Eru nokkur nýleg dæmi þar um þar sem ríkisstjórn hefur verið að taka ákvarðanir um fjárútlát utan fjárlaga. Þrátt fyrir ákvæði í fjárreiðulögum um að það skuli kynnt í fjárln. hefur það ekki verið gert. Vonandi er því þessi setning í athugasemdunum fyrirboði þess sem koma skal, ekki aðeins gagnvart þessu atriði sem hér er um rætt og tengist frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2001, heldur verði það almenn vinnubrögð í samskiptum hæstv. fjmrh. og fjárln. að kynningar fari reglulega fram og umfjöllun verði um þau mál sem eðlilegt er að fjallað verði um í samvinnu fjmrn. og fjárln.