Lokafjárlög 2001

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:10:48 (4986)

2004-03-08 17:10:48# 130. lþ. 78.9 fundur 653. mál: #A lokafjárlög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:10]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð í tilefni af ágætum athugasemdum hv. þm. varðandi tímasetningu málsins sem hér liggur fyrir.

Ég tek undir með honum að vissulega er bagalegt hvað málið hefur dregist. Ég hef reyndar áður staðið hér í ræðustól og útskýrt það oftar en einu sinni hvernig á þessu hefur staðið að lokafjárlögin eða frumvörp til lokafjárlaga undanfarin ár hafa dregist svo mjög sem raun ber vitni. Fyrir því eru skýringar sem ég hygg að þingmenn í fjárln. þekki mætavel til.

Þetta byrjar allt með því að við setningu fjárreiðulaganna er gerð grundvallarbreyting á allri uppbyggingu málsins og frá og með fjárlögum 1998 var farið yfir í allt annað kerfi í sambandi við bókhaldið. Því miður hefur dregist að koma því endanlega fyrir og útkljá álita- og ágreiningsmál sem verið hafa uppi og hreinsa út slíka hluti gagnvart gamla Ríkisbókhaldinu, nú Fjársýslunni, og öðrum þeim sem að þessum málum koma. Ég tek að sjálfsögðu á mig alla pólitíska ábyrgð á því en þetta er staða sem ég tek undir með hv. þm. að er algjörlega ómöguleg.

Núna erum við að gera sérstakt átak í þessu og á þessu þingi verða vonandi afgreidd lokafjárlög fyrir árið 2000, 2001 og vonandi einnig 2002, þannig að frá og með næsta hausti megi koma þessu í það horf sem lögin um fjárreiður ríkisins gera ráð fyrir. Næsta haust getum við því lagt fram lokafjárlagafrumvarp fyrir síðasta ár, þ.e. árið 2003, eins og vera ber og verður engin afsökun fyrir því eftir að öll fjárlagakerfin, mannauðskerfin og fjárhagskerfin sem búið er að setja upp í Fjársýslu ríkisins verða komin í fullt gagn.