Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:20:13 (4991)

2004-03-08 17:20:13# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að þegar tækninni hefur fleygt það fram að fjöldaframleiðsla tvíorkubíla eða tvinnbíla, sem geta nýst við vetni, verður hafin og þeir komnir á götuna, eins og hæstv. ráðherra orðar það, muni hann beita sér fyrir lagabreytingum sem gefa honum þá heimild sem ég gat um hér áðan.

Ég tel það ákaflega nauðsynlegt og ég tel rétt að fara þá leið sem hæstv. ráðherra nefnir hér, að fara í heildstæða stefnumótun sem einmitt varðar það. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að tæknin sé ekki alveg komin á þetta stig. Ég held --- og hv. þm. Hjálmar Árnason leiðréttir mig ef ég fer rangt með --- að einmitt um þessar mundir sé tæknin að komast á það stig að á allra næstu missirum og örugglega á þessu kjörtímabili munum við sjá fjöldaframleidda bíla, sem gætu keppt við annars konar ökutæki ef þeim væri búin betri staða með skattalegum ívilnunum. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, og Samf., að þessa stefnumótun þurfi að ráðast í og við höfum lagt fram sérstaka tillögu um það.

Að því er varðar metangas og rafmagn, sem menn eru í vaxandi mæli farnir að nota til þess að knýja bifreiðir sínar, hafa Norðmenn farið þá leið að fella virðisaukaskatt og þungaskatt af svona bílum. Þegar það var gert tífaldaðist salan á þeim.