Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:25:23 (4993)

2004-03-08 17:25:23# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umræðum er langt frá því að ég sé jafn vel að mér í þessum efnum og hv. þm. Hjálmar Árnason sem hefur sýnt lofsverðan áhuga og dugnað í þessu máli. Þökk sé honum fyrir það. Ég var mér þess ekki meðvitaður að vetnisbílarnir féllu í reynd undir þetta ákvæði. En nú er það svo að hvorki hæstv. fjmrh. var það í sinni ræðu né ýmsir þeir sem tengjast Íslenskri nýorku, eða svo hef ég skilið mál þeirra.

Ég er þeirrar skoðunar að ákaflega mikilvægt sé að gera allt sem hægt er til þess að greiða götu ökutækja af þessu tagi. Það er auðvitað vel, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur reyndar áður upplýst mig um, að það er von á heildstæðri stefnumótun um þetta mál frá nefnd. Ég hef lagt fram fyrir hönd Samf. þáltill. þar sem kveðið er á um að það eigi að heimila fjmrh. að taka af öll opinber gjöld á meðan hann telur að þess þurfi til þess að bæta samkeppnisstöðu þeirra. Ég vísaði til norskra upplýsinga sem komu fram á sínum tíma í sjónvarpi. Þar gekk ríkisvaldið lengra varðandi rafbíla en hér stendur til, þar fóru menn þá leið að fella niður þungaskatt og virðisaukaskatt og áttu síðan í samningaviðræðum við sveitarfélög um að heimila þeim ýmiss konar fríðindi önnur, eins og að þurfa ekki að borga jarðgangatolla, vegatolla og ekki einu sinni bílastæðagjald. Meira að segja voru þeim veitt ákveðin forréttindi í umferðinni. Þetta leiddi til þess að notkunin stórjókst.

Ég held að við þurfum að fara þessa sömu leið, og því fyrr því betra. Eins og ég sagði styðjum við í Samf. þetta frv. hæstv. fjmrh., og teljum að lengra hefði mátt ganga.