Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:42:13 (4999)

2004-03-08 17:42:13# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spyr um frv. um svokallað olíugjald sem oft hefur borið á góma á Alþingi. Það frv. er á lista yfir þau mál sem ríkisstjórnin kynnti í haust og hyggst flytja í vetur. Það er hins vegar ekki komið fram vegna þess að það er ekki komin niðurstaða í öll atriði í málinu. En það er stefna mín að reyna að koma því máli til meðferðar í þinginu, en það er jafnframt stefnan að reyna að útrýma ágreinings- og deilumálum fyrir fram eftir því sem hægt er. Niðurstaðan er sem sé ekki fengin. En ég tek eindregið undir það með hv. þm. að núverandi kerfi hvetur til óhagkvæmni hvað varðar eldsneytisnotkun, gerir eldsneytisinnkaup þjóðarbúsins dýrari en þau þyrftu að vera og hamlar gegn því að almenningur og atvinnureksturinn nýti sér nýjustu tækni til að mynda í gerð dísilbíla og dísilvéla með því að hagnýta sér það sem fram er komið varðandi framþróun í dísilvélum. En þetta er sérstakt mál. Ég ætla ekki að fara út í efnisumræður um það en ég vildi bara upplýsa hver staða þess máls er. Hún er sú að málið er til meðferðar en er ekki enn þá tilbúið til framlagningar á hinu háa Alþingi.