Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:03:01 (5007)

2004-03-08 18:03:01# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau verða fæst stórmál, kosningaloforð Framsfl. þegar á að framkvæma þau. Það sannast hér um enn eitt þeirra. Því var lofað fyrir síðustu kosningar að koma skyldi á jöfnun á flutningskostnaði en eftir kosningar er það bara smáatriði.

Hæstv. ráðherra hefði t.d. átt að upplýsa um hve mikið þetta muni auka kostnað við flutning á hverju tonni af sementi til Egilsstaða, Ísafjarðar og þeirra staða sem jöfnun þessa kostnaðar skiptir mestu máli. Nú setur hæstv. ráðherra fyrirvara: Komi til jöfnunar á einu eða öðru formi, segir hún. Þegar málið var rætt á þingi síðasta vor skömmu fyrir kosningar höfðu menn ekki slíka fyrirvara heldur átti að vinda bráðan bug að þessu. Þá voru tínd til dæmi um það hvernig þetta væri leyst í Noregi og Svíþjóð. Síðan hafa liðið allmargir mánuðir þannig að þó svo að ræða þurfi við ESA um þetta á einhvern hátt þá er greinilegt að þetta er ekkert forgangsatriði hjá hæstv. ráðherra.

Virðulegi forseti. Ég ítreka óánægju mína með að Framsfl. skuli telja kosningaloforð sín, sem hann halaði á atkvæðin, smámál þegar á að fara að efna þau. Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða þessa forgangsröðun og koma þeirri flutningsjöfnun í gang sem lofað var áður en sú litla flutningsjöfnun sem er þó við lýði, t.d. á sementi, verður aflögð.

Ég ítreka spurningu mína, frú forseti: Getur ráðherrann nefnt dæmi um þann kostnaðarauka sem íbúar og atvinnufyrirtæki á Ísafirði og á Egilsstöðum verða fyrir við þessa breytingu?