Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:27:24 (5012)

2004-03-08 18:27:24# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Við ræðum frv. sem hæstv. iðnrh. flytur, frv. til laga um afnám laga um jöfnun flutningskostnaðar á sementi. Það er kannski talandi dæmi um það hvernig stefna þessarar ríkisstjórnar, þá ekki hvað síst ráðherra Framsfl., birtist í raun íbúum hinna dreifðu byggða landsins hvað jöfnun aðstöðumunar varðar. Ég segi Framsfl. vegna þess að að öðru jöfnu mætti maður hafa væntingar til Framsfl. og ráðherra hans um að gæta að samkeppnisstöðu dreifbýlisins, samkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja og einstaklinga úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Einmitt ráðherrar Framsfl. ættu að hafa það í huga. Svo virðist samt vera þveröfugt og ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er að reyna á einhvern hátt að þvo af flokknum ábyrgð og skyldur gagnvart dreifbýlinu.

Það er dapurt, hæstv. ráðherra. Hér er verið að flytja frv. um að fella niður jöfnun á flutningskostnaði á sementi. Þegar rætt var um sölu á Sementsverkmiðjunni fyrir rúmu ári var einmitt lögð áhersla á hversu mikilvægt það væri að við söluna yrði bæði tryggð áframhaldandi framleiðsla á innlendu sementi, innlend sementsframleiðsla hér á landi, og jafnframt líka að tryggja að neytendur, einstaklingar og fyrirtæki vítt og breitt um landið, nytu jafnræðis hvað varðaði verð á innlendu sementi. Það var einmitt rætt um það í tengslum við sölu Sementsverksmiðjunnar hvernig mætti tryggja áfram þá jöfnun sem hafði farið fram í gegnum framleiðslu og sölu á sementi frá Sementsverksmiðjunni meðan hún var eign ríkisins.

[18:30]

Þá var rætt um að setja mætti þær kvaðir varðandi sementsframleiðsluna að afgreiðslustaðir yrðu á ákveðnum stöðum á landinu, bæði fyrir laust og sekkjað sement, þar sem framleiðandinn væri skyldaður og þá jafnvel styrktur til þess að geta selt sement á sama verði hvarvetna á landinu. Í þeirri umræðu var t.d. horft til sjóflutninganna og ég harma það að sjóflutningar á sementi skuli vera lagðir niður. En þá var einmitt horft til þess að hægt væri að semja um ákveðna afhendingarstaði þar sem sement væri afgreitt, flutt á sjó og afgreitt á jöfnunarverði og yrðu þeir staðir jafnvel á Snæfellsnesi eða a.m.k. á Patreksfirði, Ísafirði, á ákveðnum stöðum á Norðurlandi og ákveðnum stöðum fyrir austan og fyrir Suðausturlandi og Vestmannaeyjum. Þá yrði tryggt að á þessum stöðum væri sement selt á jafnaðarverði um land allt og jafnframt reynt að hafa áhrif á hagkvæmasta flutningsmátann.

Ég man að þetta var rætt í tengslum við söluna á Sementsverksmiðju ríkisins til einkaaðila þannig að sala á Sementsverksmiðjunni þýddi ekki jafnframt að sú jöfnun sem hafði verið náð í gegnum starfrækslu Sementsverksmiðjunnar yrði ekki fullkomlega felld niður. En þetta hefur nú farið á allt annan veg því að nú flytur hæstv. iðnrh. og byggðamálaráðherra Framsfl. frv. um að fella niður alla jöfnun á flutningskostnaði sements.

Ég innti hæstv. ráðherra eftir því hvort ráðherrann vissi hvað þetta þýddi í aukningu kostnaðar á sementi víða um land en hæstv. ráðherra gat ekki komist til þess að svara því í því stutta andsvari sem var í upphafi umræðunnar. En ég vil áfram inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða áhrif þetta hefur. Hver er flutningskostnaðurinn á sementi? Hver mun hann verða eftir þessar breytingar?

Það er líka dapurlegt að verða að vitna til þess að nú skuli vera keyrt fram frv. um að fella niður þá litlu jöfnun sem var á einu þýðingarmesta hráefni til byggingar í landinu, sementi, fella niður þá litlu jöfnun sem þar er í gangi en vera samtímis að þykjast vera að ræða um að taka þurfi upp aðgerðir til jöfnunar á flutningskostnaði í landinu. Ég minntist á það í andsvari mínu við hæstv. ráðherra að á síðasta vetri var mjög rætt um flutningskostnaðinn. Þá lét hæstv. samgrh. vinna skýrslu um flutningskostnað í landinu, hvernig hann liti út gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum vítt og breitt um landið og þá kom í ljós að það munaði kannski gríðarlega fyrir viðkomandi staði í verði á þeim vörum sem þeir þurftu að fá hvað það hækkaði við flutningskostnaðinn. Það munaði kannski yfir 70 eða jafnvel yfir 100% í sumum tilvikum hvað flutningskostnaðurinn jók verð á vörunni. Og svo þegar við bættist að um helmingur þess kostnaðar voru skattar til ríkisins þá var ríkið í raun að skattleggja fjarlægðir frá höfuðborgarsvæðinu. Fjarlægðin var allt í einu orðin tekjustofn per se. Maður héldi nú að annað lægi beinna við af hálfu ríkisins en að gera fjarlægðina að tekjustofni, það lægi frekar fyrir að gera þveröfugt að jafna þann mun sem verður á samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja við mismunandi flutningskostnað og að það lækkaði sín gjöld.

Seint í haust var hér ákveðin breyting á flutningsjöfnunarsjóði sements sem átti að taka gildi frá og með 1. janúar 2004. Þar sem ég er með bréf frá Sementsverksmiðjunni, dagsett á Akranesi 30. desember 2003, til viðskiptaaðila Sementsverksmiðjunnar hf., vil ég vitna til þess hér, með leyfi forseta.:

,,Flutningsjöfnunarsjóður sements hefur tilkynnt breytingar á greiðslum úr sjóðnum frá og með 1. janúar 2004 sem hafa í för með sér lækkun greiðslna í flestum tilvikum, einkum á sekkjuðu sementi og hlutfallslega meira eftir því sem vegalengdin er lengri. Það samkomulag hefur orðið milli fyrirtækisins og Flytjanda hf. að frá og með 1. janúar 2004 innheimtir Flytjandi hf. flutningskostnað hjá kaupanda samkvæmt gildandi taxta sínum hverju sinni, en kaupandi gerir síðan kröfu á flutningsjöfnunarsjóð samkvæmt gildandi taxta sjóðsins hverju sinni. Rétt er að benda á að mismunur verður á þessum greiðslum í öllum tilfellum nema einu, kaupanda í óhag. Kaupanda er að sjálfsögðu heimilt að breyta flutningsháttum ef hann getur með því lækkað kostnað við flutningana.``

Sem sagt frá 1. janúar og fram að gildistöku þessa lagafrv. sem hæstv. iðnrh. er hér að leggja fram og gert er ráð fyrir að komi til framkvæmda 1. júní, að mig minnir, gilda þær reglur sem þarna eru kynntar.

Þá gefur flutningsjöfnunarsjóður sements út viðmiðunartölur um flutningskostnað sem hann vill miða við varðandi endurgreiðslu. Og ef við skoðum þær tölur sem hér eru settar fram er t.d. flutningskostnaður til Kirkjubæjarklausturs samkvæmt tillögum sjóðsins 2.673 kr. á tonn. Flutningsjöfnunarsjóður gaf sem sagt út þessa viðmiðun.

Nú skyldi maður halda að þetta hefði átt að vera eitthvað sem flutningsjöfnunarsjóður hefði verið búinn að fá einhvern rökstuðning fyrir. En þá skulum við sjá hverju flutningsfyrirtækið Flytjandi svarar og hvernig þeim samningum var háttað. Með bréfi, dags. 1. janúar 2004, til Sementsverksmiðjunnar varðandi þetta erindi svarar Flytjandi þessu máli og ég leyfi mér að vitna til þess, með leyfi forseta:

,,Vegna ákvörðunar stjórnar flutningsjöfnunarsjóðs sements um flutningstaxta fyrir akstur á sekkjuðu sementi frá og með 1. janúar 2004 telur Flytjandi hf. sér ekki fært að flytja sement á þeim gjöldum. Til að einfalda málið setjum við fram eftirfarandi viðmiðunarverð sem gilda þegar sement er flutt í gegnum flutningskerfi Flytjanda.``

Þetta var sá aðili sem flutningsjöfnunarsjóður taldi sig vera búinn að semja við um flutninginn og hann er þá með allt annað verð en Flytjandi vill síðan flytja sementið á.

Af því að hæstv. ráðherra minntist á að það hefði verið mjög lítill hvati í núverandi kerfi til þess að leita hagkvæmustu leiða í flutningi, sem ég vil í sjálfu sér mótmæla ef rétt hefði verið á málum haldið, þá virðist sá hvati a.m.k. ekki vera svo mikill að verð sem Flytjandi er reiðubúinn að flytja vöruna á sé neitt í líkingu við það sem flutningsjöfnunarsjóður taldi hæfilegt að miða við.

Ég vil leyfa mér að vitna í nokkur verð sem Flytjandi hefur gefið upp um að hann vilji taka fyrir flutning á sekkjuðu sementi:

Til Kirkjubæjarklausturs 4.287 kr., Djúpavogs 7.247 kr. og Breiðdalsvíkur 7.877 kr. Og ef við förum vestur, til Patreksfjarðar 5.886 kr., Þingeyrar 6.906 kr., Flateyrar 7.076 kr., Ísafjarðar 6.816 kr. og Suðureyrar 7.046 kr.

Þetta eru þau verð sem þeir eru reiðubúnir að flytja á sem er nálægt því að vera nærri því tvöfalt það verð sem flutningsjöfnunarsjóður vildi meina að greiða ætti fyrir þennan flutning.

Það mun síðan muna um það þegar þátttaka flutningsjöfnunarsjóðs fellur niður að þá kemur allur þessi kostnaður af fullum þunga á þá sem eru að kaupa þessa vöru.

Virðulegi forseti. Það er því alveg makalaust að flytja hér frv. um að fella niður þá litlu jöfnun sem í gangi er þó svo að hún hafi í sjálfu sér þurft endurskoðunar við, en vera samtímis með ákveðin vilyrði og loforð um að endurskoða þetta flutningskerfi í heild sinni með það að markmiði að taka upp jöfnun á flutningskostnaði samkvæmt ákveðnum skilyrðum til þess að jafna samkeppnishæfni atvinnulífs og búsetu í landinu. Því var lofað fyrir síðustu alþingiskosningar í umræðum um flutningskostnað á síðasta vetri að það yrði gert og það yrði eitt af forgangsmálum. En nú er þetta bara orðið smámál og eins og hæstv. ráðherra komst að orði áðan ,,komi til jöfnuðar``. Það var ekki það orðalag sem notað var fyrir kosningarnar í vor. Þá var bara talið nauðsynlegt að einhenda sér í að finna þær leiðir sem gætu leitt til lækkunar flutningskostnaðar og jöfnunar á samkeppnisstöðu atvinnulífs og búsetu í landinu. Það hefði verið miklu brýnna að vinna að þessu en að keyra í gegn hér að fella niður þá litlu jöfnun sem í gangi er.

Tökum t.d. samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar í landinu. Áður var jöfnunarverð á útflutningi á fiski þannig að ef aðilar áttu ekki aðgang að útflutningshöfn var varan flutt til næstu útflutningshafnar og þeim kostnaði var jafnað út. Núna eru bara örfáar útflutningshafnir. Eru þær ekki þrjár? Eskifjörður, Reykjavík og Hafnarfjörður. Ég man ekki hve margar útflutningshafnir eru á fiski. Það er því orðinn gríðarlegur flutningur núna, verið að flytja kannski fisk til útflutnings landveg frá Vestfjarðahöfnunum, frá Norðurlandshöfnunum o.s.frv. til næstu útflutningshafnar, en þessi kostnaður fellur nú alfarið á viðkomandi fiskframleiðendur. Og sér þá hver í hendi sér með skipan þessara mála t.d. hvað útflutningshafnir varðar og stöðu sjóflutninganna hér við land og stöðu þessa jöfnuðar sem við viljum hafa sem er felldur þarna niður, hversu mjög þetta skerðir samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna.

Áfram er bara keyrt á þetta sama að fella niður alla jöfnun. Hún er samkeppnishamlandi, hún truflar samkeppni. En ef það er eitthvað sem truflar í raun samkeppnishæfnina þá er það misréttið sem á sér stað í gegnum flutningskostnaðinn að og frá útflutningshöfnum og að og frá meginfyrirtækjum sem flytja inn vörur sem koma flestar inn á höfuðborgarsvæðið og er síðan dreift út á land. Það er einmitt þetta sem kannski skekkir mest samkeppnisstöðuna. Og mér fyndist að hæstv. ráðherra samkeppnismála ætti að vera meira upptekin af því hvernig á að jafna samkeppnisstöðu atvinnulífs og búsetu frekar en að auka á þann mismun. Og það frv. sem hæstv. ráðherra er hér með er með eindæmum, liður í því hjá hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherrum Framsfl. að skekkja enn frekar samkeppnisstöðu atvinnulífs og búsetu í landinu með því að fella niður þá litlu jöfnun sem þó í gangi var á sementsflutningum í landinu.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum af hálfu hæstv. ráðherra. Ég mótmæli þeirri forgangsröðun sem hér er sett um að stöðugt skuli felld niður, ráðist á og skert samkeppnisstaða atvinnulífs og búsetu úti á landi með lagasetningum af hálfu ráðherra.