Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 13:41:41 (5014)

2004-03-09 13:41:41# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanrmn. á þskj. 970. Þetta er mál nr. 338, frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda samning um þátttöku lýðveldisins Tékklands, lýðveldisins Eistlands, lýðveldisins Kýpur, lýðveldisins Lettlands, lýðveldisins Litháens, lýðveldisins Ungverjalands, lýðveldisins Möltu, lýðveldisins Póllands, lýðveldisins Slóveníu og lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu. Aðildarsamningur EES var gerður í Lúxemborg 14. október 2003 og undirritaður af Íslands hálfu 11. nóvember síðastliðinn. Jafnframt er lagt til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum fái lagagildi hér á landi.

Þingheimi er vel kunnugt um samningaviðræður um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins. Þær tóku langan tíma. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að óhóflegar kröfur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um tæplega 40-föld framlög til þróunarsjóða hafi komið á óvart. Þá verð ég að segja að framkvæmdastjórnin hafi farið nokkuð einkennilega fram í málinu enda kom síðar á daginn að hún hafði ekki tryggt sér umboð aðildarríkja til slíkra krafna. En samningar náðust að lokum.

Ég vil nota tækifærið og þakka utanríkisþjónustunni fyrir framgöngu hennar í málinu. Ekki verður annað sagt en unnið hafi verið skipulega og fagmannlega að málinu af Íslands hálfu.

Meginniðurstaða viðræðnanna varð að stofnaður verður nýr þróunarsjóður EFTA og verða framlög EFTA-ríkjanna til sjóðsins fimmfalt hærri en þau hafa verið undanfarin fimm ár. Framlag Íslands verður um 500 millj. kr. á ári og mun mestur hluti framlagsins renna til nýju aðildarríkjanna. Íslenska ríkið hefur lagt áherslu á að þróunarsjóðurinn styrki einkum verkefni á sviði sjávarútvegs, hagnýtingar jarðhita og orkuvinnslu en á þeim sviðum getur Ísland sérstaklega miðlað þekkingu og reynslu. Hugsanlega væri möguleiki á að Íslendingar færu í samstarfsverkefni með þeim ríkjum sem tryggði okkur ákveðin áhrif.

Við aðild nýju ríkjanna að Evrópusambandinu falla niður gagnkvæmir fríverslunarsamningar þeirra og Íslands. Af þeim sökum var fyrirséð að viðskiptakjör fyrir ákveðnar afurðir mundu versna. Unnið var að þessu máli af hálfu utanríkisþjónustunnar og eftir diplómatískum leiðum.

Þá er rétt að geta þess að utanrmn. var í heimsókn í Varsjá í Póllandi í nóvember árið 2002. Þá var tækifærið notað til að koma sjónarmiðum Íslendinga til skila, til þingmanna, ráðherra og embættismanna sem nefndin fundaði með. Hagsmunir Íslands og nýju aðildarríkjanna fóru saman að þessu leyti enda kom fljótlega í ljós að þau kærðu sig ekki um hærra verð á þeim vörum sem áður höfðu verið keyptar frá Íslandi.

Rétt er að nefna að samningar tókust um niðurfellingu tolla á frosnum síldarsamflökum frá Íslandi og endurflokkun í tollskrá ESB þannig að sú afurð fær sömu tollmeðferð og frosin síldarflök. Jafnframt náðust samningar um að kvótar yrðu settir fyrir tollfrjáls viðskipti með helstu vörutegundir sem viðskipti hafa verið með og notið hefðu betri viðskiptakjara samkvæmt gildandi fríverslunarsamningum.

[13:45]

Stækkun Evrópusambandsins tekur gildi þann 1. maí nk. Til að stækkun EES taki gildi þarf hvert aðildarríki ESB að fullgilda stækkun EES í samræmi við stjórnskipunarlög sín. Því miður tafðist undirritun stækkunarsamninga EES um einn mánuð í haust þar sem ágreiningur reis milli Liechtenstein annars vegar og Tékklands og Slóvakíu hins vegar, m.a. um viðurkenningu á fullveldi. Bráðabirgðasamkomulag náðist þannig að unnt var að undirrita stækkunarsamningana af hálfu EES og EFTA-ríkjanna en að sjálfsögðu tafði þetta fullgildingarferlið. Utanrmn. leggur sérstaka áherslu á að stækkun EES taki gildi á sama tíma og stækkun Evrópusambandsins og samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað bendir allt til þess að það gangi eftir. Eftir stækkun verða aðildarríki Evrópusambandsins 25 talsins og innan EES verða þá 28 ríki.

Nefndin fékk á sinn fund Gunnar Snorra Gunnarsson, Grétar Má Sigurðsson, Bergdísi Ellertsdóttur og Finn Þór Birgisson frá utanrrn., Hönnu S. Gunnsteinsdóttur frá félmrn., Kristrúnu Kristinsdóttur frá dómsmrn., Gústaf Adolf Skúlason og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands.

Þá ákvað nefndin að senda málið til umsagnar og var það sent ríflega 50 samtökum, félögum, fyrirtækjum og stofnunum. Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum banka- og verðbréfafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun og Verslunarráði Íslands. Þá bárust nefndinni upplýsingar og gögn frá Alþýðusambandi Íslands, utanrrn. og félmrn.

Nefndin tók til sérstakrar athugunar ákvæði samningsins um frjálsa för fólks. Gera verður ráð fyrir að töluverður fjöldi fólks frá nýju aðildarríkjunum, einkum Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, vilji freista gæfunnar á Íslandi. Íslenskt atvinnulíf þarf á erlendu vinnuafli að halda en hins vegar er nauðsynlegt að íslenskur vinnumarkaður sé vel undirbúinn fyrir fjölda útlendinga í atvinnuleit. Töluverður fjöldi útlendinga hefur verið hér við störf undanfarin missiri og virðast þeir almennt hafa fallið vel að íslensku samfélagi og reynst íslenskum atvinnurekendum gott vinnuafl. Framkvæmdirnar við Kárahnjúka, þar sem mikill fjöldi erlendra starfsmanna kemur í einu, hefur hins vegar vakið upp spurningar um hvort stofnanir samfélagsins, atvinnurekendur og verkalýðsfélög séu nægilega undirbúin.

Samkvæmt aðildarsamningi EES er einstökum ríkjum heimilt að beita sérstökum aðlögunartíma í allt að sjö ár frá gildistöku stækkunarsamninganna. Ríkisstjórnin lýsti því nýlega yfir að hún hygðist leggja til tveggja ára aðlögunartíma frá 1. maí 2004 til 1. maí 2006. Samkvæmt upplýsingum sem nefndin hefur aflað munu flestöll ríki Evrópska efnahagssvæðisins beita tveggja ára aðlögunartíma en einhver hafa þegar lýst yfir lengri aðlögunartíma.

Varðandi einstök ríki er staðan í dag þannig, ef við lítum fyrst á EFTA-ríkin í EES, að í Liechtenstein er víðtæk undanþága frá frjálsri för. Varðandi Noreg er líklegt að beitt verði tveggja ára aðlögunartíma. Með núverandi ESB-ríki, ef ég tel þau upp, er í Austurríki aðlögunarfrestur a.m.k. fimm ár. Belgía, tveggja ára aðlögunarfrestur, endurskoðað verði með röskun. Bretland opnar frá fyrsta degi en með hertu eftirliti, og öryggisráðstafanir verða sömuleiðis gerðar ef fram kemur röskun. Varðandi Danmörku opna þeir frá fyrsta degi en með hertu eftirliti þannig að það er líklega ekki opnun í raun. Í Finnlandi verður aðlögunarfrestur ákveðinn líklega í fimm ár. Frakkland, aðlögunarfrestur í a.m.k. fimm ár, það verður endurskoðað eftir tvö ár. Grikkland opnar ekki fyrr en 2006, jafnvel síðar. Holland opnar frá 1. maí 2005, þ.e. að 22 þús. launþegum verður heimilað að koma fyrir 2006. Írland, tveggja ára aðlögunarfrestur, a.m.k. til að byrja með. Ítalía, aðlögunarfrestur nýttur í allt að sjö ár. Lúxemborg opnar eftir tvö ár, fram að því gilda núverandi reglur. Portúgal, afstaða óljós, veita atvinnuleyfi eftir þörf vinnumarkaðar. Spánn, svipaðar aðgerðir og í Danmörku, þ.e. að launþegar geta ekki komið í atvinnuleit, verða að vera með vinnu til að fá atvinnuleyfi og sækja um áritun í heimalandi áður en þeir fara utan. Svíþjóð opnar ekki fyrr en 2006. Þýskaland, aðlögunarfrestur í a.m.k. fimm ár.

Þetta eru upplýsingar sem nefndin fékk frá utanrrn. og í ljósi þeirra telur nefndin hyggilegt að beita aðlögunartíma á Íslandi. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að aðlögunartíminn fram til 2006 verði vel nýttur til að undirbúa íslenskan vinnumarkað fyrir stóran, sameiginlegan vinnumarkað á EES-svæðinu. Á það var bent í utanrmn. að nauðsynlegt væri að gæta þess að samfélagið og stofnanir þess væru undirbúin fyrir aukinn fjölda erlendra starfsmanna og fjölskyldna þeirra og má í því sambandi einkum nefna félags- og skólakerfi. Ljóst er að útlendum starfsmönnum fylgja gjarnan fjölskyldur þeirra og þá þarf samfélagið að vera tilbúið til að taka við börnum í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Huga þarf að heilbrigðis- og almannatryggingakerfi o.s.frv.

Á fundi utanrmn. með þingmönnum frá Evrópuþinginu., sem haldið var þann 17. febrúar sl., kom skýrt fram að menn vilja taka stöðuna fyrst eftir tvö ár til að sjá hvort og þá hvaða vandamálum menn standa frammi fyrir. Ekki er óeðlilegt að lengri aðlögunartími en lagður er til í upphafi verði nauðsynlegur og fylgjast þarf vel með hvað önnur ríki munu gera á næstu missirum. Eins og staðan er í dag er ekki ósennilegt að mörg ríki muni framlengja aðlögunartíma sinn.

Nefndin fór sérstaklega yfir hvaða lagbreytingar væru nauðsynlegar í tengslum við fullgildingu stækkunar samningsins en engin önnur lagafrumvörp fylgdu því frv. sem hér um ræðir. Samkvæmt upplýsingum frá félmrn. og dómsmrn. þarf að gera breytingar á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum nr. 96/2002, um útlendinga, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, fyrir 1. maí nk. til að takmarka megi frjálsa för fólks frá nýju aðildarríkjunum. Nefndin leggur áherslu á að vinnu við þau frv. verði hraðað þannig að nauðsynlegar lagabreytingar hafi tekið gildi fyrir 1. maí nk. Þá bendir nefndin á að mikilvægt virðist að taka til athugunar framkvæmd laga nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.

Hæstv. forseti. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynst Íslandi vel í meginatriðum og opnað aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. EES-samningurinn er einn mikilvægasti samningur Íslands á viðskiptasviðinu og við höfum þurft að hafa töluvert fyrir því að koma honum á og viðhalda honum. Stækkun EES-svæðisins er fagnaðarefni og okkar bíða vafalaust ný tækifæri á enn stærri markaði en jafnframt má reikna með að það geri meiri kröfur til okkar og stofnana samfélagsins.

Nýju aðildarríkin verða í fyllingu tímans aðilar að Schengen, þegar þau hafa uppfyllt hinar ströngu kröfur sem gerðar eru til Schengen-ríkjanna. Við stækkunina verða til nýir nágrannar Evrópusambandsins og ytri landamæri færast út og að ríkjum sem áður voru í meiri fjarlægð.

Við höfum barist gegn skipulagðri brotastarfsemi eins og smygli á fólki. Schengen-eftirlitskerfið hefur þar sannað gildi sitt en kerfið verður aldrei traustara en veikasti hlekkurinn. Um leið og fólk er komið inn á Schengen-svæðið á það greiða leið um allt EES-svæðið. Ég ítreka þess vegna mikilvægi þess að standa vörð um áreiðanleika kerfisins og að tryggja að ný aðildarríki uppfylli ströngustu kröfur áður en þau verða hluti af Schengen-svæðinu. Aðlögun nýju aðildarríkjanna að EES-samstarfinu er langtímaverkefni, það er ljóst, en við bjóðum þau velkomin til samstarfs innan EES og óskum þeim jafnframt til hamingju með þann árangur sem þau hafa náð heima fyrir og á alþjóðavettvangi.

Hæstv. forseti. Samstaða var um málið í utanrmn. en einn nefndarmanna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, ritar undir nál. með fyrirvara. Utanrmn. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. Undir nál. þetta skrifa hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður, Jónína Bjartmarz, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson og Steingrímur J. Sigfússon, en hann ritar undir með fyrirvara eins og ég gat um áðan. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.