Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 14:23:21 (5019)

2004-03-09 14:23:21# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Mér er nokkur vandi á höndum. Hér er vísað til yfirlýsingar sem hv. þm. gat ekki farið með. En hafi hún verið að vísa til blaðagreinar sem varaformaður Samf. skrifaði fyrir nokkrum dögum, sem ég las, get ég algerlega svarað því. Þar lagði varaþingmaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samf., höfuðáherslu á að menn nálguðust þetta stóra og flókna viðfangsefni með nýjum hætti. Það höfum við einmitt gert í þinginu. Við lögðum fram fyrir örfáum dögum síðan --- hafi það farið fram hjá hv. þm. --- till. til þál. þar sem við lögðum til að Alþingi Íslendinga setti á stofn öryggismálanefnd sem skilgreindi annars vegar vána, hins vegar lágmarksvarnir Íslands.

Ég var satt að segja svo bláeygur að ég trúði því að ríkisstjórnarflokkarnir mundu koma til móts við okkur jafnaðarmenn í þessari vinnu, því það veit hv. þm. og þingheimur allur að það hefur ekki staðið á okkur jafnaðarmönnum í þessum efnum. Við höfum verið afskaplega --- ja, ég vil nota orðið ,,loyal`` --- þegar það hefur komið að þeim vandamálum sem ríkisstjórnin hefur verið að berjast við gagnvart varnarliðinu á Miðnesheiði og viljað halda sínum kortum þéttar að brjósti og ekki viljað þiggja aðstoð eða ráðleggingar okkar í stjórnarandstöðunni, þó það hafi margsinnis verið boðið. Þá er það bara hin pólitíska ákvörðun ríkisstjórnarinnar ef hún vill gera það.

Það er blákaldur veruleiki sem við horfum framan í, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að það eru að verða umtalsverðar breytingar á varnarviðbúnaði á Miðnesheiðinni, ákvarðanir sem ekki eru teknar hér heima heldur vestur í Bandaríkjunum. Við viljum vera tilbúin að bregðast við þeim, ekki með því að stinga höfðinu í sandinn. Við verðum að horfast í augu við þann vanda sem við okkur blasir í þessum efnum sem öðrum.