Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:06:26 (5023)

2004-03-09 15:06:26# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Að gefnu tilefni hlýt ég að óska hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni til hamingju með að hafa tekið alþjóðahyggjuna upp í flokk sinn með atkvæðagreiðslu. Það er oft svo að slíkar kenndir verða að byrja að innan og dugar ekki að greiða um þær atkvæði.

Á hinn bóginn hefur hv. þm. ekki skýrt það enn þá hvernig hann ætlar að koma fyrir á sameiginlegu markaðssvæði þeim reglum, þeim úrskurðaraðilum, þeim dómstólum sem eiga að tryggja grunninn í þeim viðskiptaþætti sem við virðumst vera sammála um að sé góður og hagsmunum Íslendinga mjög þolanlegur.

Það má vel vera og er auðvitað alveg rétt að við erum að reyna að gera þetta líka á alþjóðlegum grunni. En ef hv. þm. vill ekki týna þessu á Evrópska efnahagssvæðinu þá verður hann líka að skýra fyrir okkur hvað VG ætlar að gera, hvaða breytingar í stofnanaþættinum hann getur sætt sig við án þess að þær gangi á þetta fjórfrelsi sem við erum að tala um.