Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:07:30 (5024)

2004-03-09 15:07:30# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Ég geri ráð fyrir að það séu einlægar hvatir hjá hv. þm. að óska mér til hamingju með að við höfum samþykkt sérstaklega að inn í okkar einföldu stefnuskrá verði alþjóðahyggjan skrifuð og samþætt með öðrum áherslum og að engin eftirsjá sé í því af hálfu hv. þm. vegna þess að það passi illa inn í þá mynd sem hann hefur kannski gjarnan viljað búa til af mér eða einhverjum slíkum að ég sé mikill einangrunarsinni.

Ætli það sé nú ekki þannig þegar upp er staðið að ég hafi haft talsvert miklu meiri alþjóðasamskipti og hrærst meira í þeim sl. 20 ár en hv. þm., ef við færum yfir það, því að ég hef stanslaust verið virkur í einhverri alþjóðasamvinnu í rúmlega 20 ár. (GÁS: ... persónubundið?) (MÁ: Margar ferðir?) Ég held að ég hafi farið í þó nokkrar ferðir já og margar ágætar.

Varðandi Evrópusambandið er það tollabandalag og eitt af því sem margir gagnrýna bæði innan Evrópusambandsins og í nágrenni við það er auðvitað tilhneiging Evrópusambandsins til að múra sig þar af. Margir raunverulegir alþjóðasinnar segja einmitt að það sé einangrunarhyggja, því miður, sem Evrópusambandið að mörgu leyti stjórnast af í sambandi við tollmúra sína og fleira í þeim dúr.