Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:14:05 (5028)

2004-03-09 15:14:05# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það getur vel verið að hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur finnist fyndið að reyna að snúa út úr þessu með að menn byggi á samningi sem þeir séu á móti. Mér finnst þetta ekki mjög málefnaleg umræða. (BH: Mér finnst þetta ekkert fyndið. Þetta er alvörumál.) Ef hv. þm. finnst þetta ekki einu sinni fyndið þá spyr ég: Til hvers er hv. þm. að þessu því að mér finnst þetta engu máli skipta? Veruleikinn er eins og hann er. Veruleikinn, burt séð frá afstöðu einstakra manna til EES-samningsins á sínum tíma fyrir meira en tíu árum, hvort sem ég greiddi atkvæði gegn honum eða Halldór Ásgrímsson sat hjá eða ekki þá er veruleikinn sá --- Samfylkingin hlýtur að skilja það þó að hún skilji lítið í þessum efnum --- að á þessum grunni erum við búin að byggja síðan. Við höfum aðlagað viðskiptaumhverfi okkar. Fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa byggt samskipti sín á þessum grunni burt séð frá afstöðu einstakra manna til þess.

Varðandi stefnu Samfylkingarinnar vil ég spyrja á móti og ég veit að fleiri eru í andsvörum. Stóð ekki til að skilgreina þessi samningsmarkmið fyrir tveimur eða þremur árum? (Gripið fram í.) Það hefur ekki gengið mikið hjá Samfylkingunni. (Gripið fram í: Það er ríkisstjórnarinnar að gera það.) Ég vissi ekki annað en að það hefði átt að gera fyrir tveim, þrem árum.