Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:17:52 (5030)

2004-03-09 15:17:52# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Varðandi opnun vinnumarkaðarins þá geri ég það. Ég leggst ekki gegn því þó mér þyki það heldur miður að Ísland, úr því sem komið er, fari sömu leið og nánast öll ríkin í kringum okkur og sennilega öll hin Norðurlöndin, að beita aðlögun. Danir þykjast að vísu ekki vera að beita aðlögun, en í reynd eru þeir með nánast að öllu leyti óbreytt fyrirkomulag hvað varðar atvinnuréttindi þessara nýju EES-borgara, þ.e. þeir þurfa að fá atvinnuleyfi og það þarf að liggja fyrir að þeir séu með 100% starf í landinu o.s.frv. áður en þeir koma inn.

Það sem ég var að segja í sambandi við hvernig þetta gerðist var það að mér fundust þessar tilkynningar mjög síðbúnar. Eins og ég sagði var það eingöngu Finnland sem tilkynnti það strax. Það hefur legið fyrir í tvö til þrjú ár að þeir mundu beita aðlögun. Ég hef reyndar oft hreyft þessu á þingi sl. tvo vetur og spurt hvað Ísland ætli að gera, og fengið lítil svör. Það er loks alveg í lokin, í desember, janúar, febrúar, tveimur, þremur, fjórum mánuðum fyrir 1. maí n.k. sem að lokum verður ljóst hvað t.d. ríkisstjórnir annarra Norðurlanda ætla að gera, nema Danir voru aðeins fyrr á ferðinni.

Varðandi Írland erum við hv. þm. ekki alveg sammála. Ég verð að segja Evrópusambandinu og styrkjunum þaðan til málsbóta að ég tel að þeir séu einn af þáttunum sem nýttust Írum til að sækja fram til bættra lífskjara á sl. 20 árum eða svo. Þeir sjálfir telja gjarnan upp fimm hluti:

Rannsóknir og þróun. Þeir tóku um það ákvörðun fyrir um 20 árum að setja gríðarlega peninga í rannsóknir og þróun.

Þeir lækkuðu skatta, það er rétt.

Þeir gerðu umhverfið aðlaðandi fyrir fyrirtæki að koma inn.

Þeir lögðu mikla fjárfestingu í innviði sína, þar á meðal samgöngukerfið. Þeir voru með ungan og vel menntaðan vinnumarkað eða vinnuafl.

Í fimmta lagi gátu þeir nýtt styrki Evrópusambandsins.