Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:20:15 (5031)

2004-03-09 15:20:15# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, EKG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum það mál sem fyrir fram hefði e.t.v. mátt ætla að yrði eitt af stóru málunum í þinginu í vetur. Evrópuumræðan skýtur öðru hverju upp kollinum í stjórnmálaumræðu dagsins eins og eðlilegt er og oft hefur því verið spáð að um þessi mál yrði fyrst og fremst tekist á í hinni pólitísku umræðu í landinu. En sannleikurinn er sá að þegar á hefur átt að herða, hefur það ævinlega reynst þannig að minna hefur orðið úr þessu en menn hefðu getað gert ráð fyrir. Það voru auðvitað gríðarlega mikil tíðindi sl. haust þegar niðurstaðan varð sú að ákveðið var að stækka Evrópusambandið svo mikið sem raun ber vitni og jafnframt að Evrópska efnahagssvæðið stækkaði samhliða með þeim samningum sem undirritaðir voru skömmu fyrir jól á sl. ári.

Þetta mál hefur heilmikil áhrif á stöðu Íslands í hinu alþjóðlega samfélagi og líka heilmikil áhrif á stöðu okkar í hinu efnahagslega samfélagi, vegna þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er öðrum þræði samningur um markaðsaðgang sem skiptir okkur mjög miklu máli.

Þess vegna er á margan hátt ánægjulegt að veita því eftirtekt á þessum degi að umræðan fer fram með mjög málefnalegum hætti, efnislegum hætti, og er alls ekki háð þeim anda þeirrar miklu baráttu sem átti sér stað þegar við vorum að ræða um aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði fyrir 14 árum. Þetta segir okkur fyrst og fremst það að heilmikið vatn hefur runnið til sjávar og í raun og veru er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði á vissan hátt sáttagjörð í þessari miklu umræðu. Það er greinilega orðið þannig að samkomulagið um meginatriði samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði er miklu meira en menn gátu ímyndað sér þegar við ræddum þessi mál í þinginu veturinn 1991--1992, af gríðarlegri hörku.

Þetta finnst mér á vissan hátt segja okkur að við, sem vorum sannfærð alveg frá upphafi um að samningurinn væri þýðingarmikill fyrir okkur og skipti okkur miklu máli og gæti á vissan hátt verið grundvöllur fyrir heilmikinn árangur okkar, höfum sem betur fer orðið sannspá. Í raun og veru eru átökin ekki jafnmikil og áður. Það hefði t.d. að mínu mati verið nánast óhugsandi að ímynda sér það á þeim tíma, að þegar við værum að komast að niðurstöðu um stækkun á hinu Evrópska efnahagssvæði, að taka eins konar fermingarathöfn á samningnum, að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti í utanrmn. skrifuðu undir nál., eins og er að gerast hér.

Ef við skoðum þetta er ótvírætt, m.a. að mati Alþýðusambands Íslands, að Evrópusamvinnan hefur verið að skila okkur mjög mikið fram á veginn. Ég vek athygli á því að á ársfundi Alþýðusambands Íslands var gerð samþykkt þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Það er óumdeilt að Evrópusamvinnan og þá sérstaklega samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, hefur þjónað hagsmunum Íslands vel. Með EES-samningnum var íslensku efnahagslífi skapaður hliðstæður rammi og íslenskum fyrirtækjum sambærileg skilyrði og samkeppnisreglur og gilda annars staðar á svæðinu. Íslensk fyrirtæki og atvinnulíf hafa sýnt að til staðar er vilji og geta til að nýta sér þá möguleika sem Evrópusamvinnan hefur fært þeim til að efla starfsemi sína og auka samkeppnishæfni. Aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu og þátttaka Íslands í Evrópusamvinnunni hafa jafnframt haft mikla þýðingu fyrir framþróun vinnumarkaðar hér á landi og réttarstöðu launafólks.``

Undir þessi orð er sjálfsagt að taka. Það er alveg rétt að það er óumdeilt að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði hefur þjónað hagsmunum okkar gríðarlega vel. Að vísu tel ég að menn hafi stundum ýkt mjög hin samfélagslegu áhrif EES-samningsins. Mjög margt af því sem hefur verið að færa okkur betri lífskjör eru ekki árangur eða afrakstur af EES-samningnum, heldur fyrst og fremst árangur af pólitískri stefnumótun sem við höfum unnið eftir frá árinu 1991. Það hefur auðvitað fyrst og fremst breytt samfélagi okkar og fært okkur fram á veginn.

Engu að síður, virðulegi forseti, er ástæða til þess þegar við fjöllum um þessi mál, sem eru í eðli sínu gríðarlega stór, að við veltum fyrir okkur stöðu málsins. Það sem upp úr stendur að mínu mati er í fyrsta lagi að menn eru að verða mjög sammála um gildi EES-samningsins eins og kemur fram í umræðunum og kemur fram í nál. utanrmn. Jafnframt þurfum við að velta fyrir okkur stöðunni þegar við horfum fram á veginn. Því hefur oft verið haldið fram að EES-samningurinn sé að verða úreltur og að stoðir hans séu að feykjast og verða feysknar. Þegar við hins vegar skoðum það betur er í raun mjög fátt sem bendir til þess. Menn vitna að vísu til einhverra óljósra orða einstakra pótintáta innan Evrópusambandsins, en nú skulum við aðeins velta öðru fyrir okkur.

Hvað reynir mest á samninga af þessu tagi? Þegar við tökum til við að stækka hið Evrópska efnahagssvæði, augljóslega. Þá reynir í grundvallaratriðum á hvort EES-samningurinn sé einhvers virði. Það sem kemur á daginn er að stækkunarferli Evrópusambandsins og aðild EES-ríkjanna tókst bara alveg prýðilega hvað varðaði samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Þar reyndi auðvitað í grundvallaratriðum á hvort EES-samningurinn stæðist. Einhver óljós skilaboð frá einstökum mönnum um að EES-samningurinn sé eitthvað sem Evrópusambandið vilji ekkert hafa með að gera er lítils virði í samanburði við það mikla próf sem EES-samningurinn var að gangast undir. Þetta er auðvitað stóra málið. Við höfum í raun og veru fengið staðfestingu á því að EES-samningurinn lifir ágætu og öflugu lífi. Þess vegna stenst talið um að við séum í einhverri stórhættu að einangrast í þeirri stöðu sem við erum núna í, Íslendingar, einfaldlega ekki. EES-samningurinn er að sýna og sanna gildi sitt.

Hins vegar er áhyggjuefni að við verðum vör við tilteknar hræringar innan Evrópusambandsins sem ekki lúta sérstaklega að EES-samningnum, en lúta hins vegar að eðli Evrópusambandsins sjálfs og hvernig það er að meðhöndla tiltekið mál. Gott dæmi um það er tiltekin einangrunarhyggja sem virðist koma stundum fram í tilteknum málum innan Evrópusambandsins. Glöggt dæmi um það er hvernig við þurftum nánast að berjast áfram í því að fá samþykkt svo sjálfsagðan hlut sem varðaði aðild okkar að hinu Evrópska efnahagssvæði og stöðu hins Evrópska efnahagssvæðis á nýjum sameiginlegum innri markaði, og við kynntumst þegar við vorum að berjast fyrir hagsmunum okkar varðandi markaðsaðgang með síldarflök.

Eins og við munum höfðum við þennan markaðsaðgang gagnvart okkar mikilvægasta landi, sem var Pólland. Það var býsna þýðingarmikið fyrir okkur, en gríðarlega þýðingarmikið fyrir Pólverja. Við sem fórum ferð á vegum utanrmn. Alþingis til Póllands fundum það mjög glögglega á sínum tíma að Pólverjar lögðu mjög mikla áherslu á þetta. Þeim var ljóst að þetta skipti þá sem tiltölulega fátæka Evrópuþjóð mjög miklu máli. Ekki bara fyrir Pólverja almennt, heldur fyrir þau svæði sérstaklega sem höfðu hagsmuni af þessu máli því fátæk héruð í Póllandi áttu mjög mikið undir því að það yrði áfram óheftur markaðsaðgangur með þessar vörur inn á hið Evrópska efnahagssvæði, til Póllands, eins og verið hafði.

Þess vegna var það mjög sérkennilegt, í ljósi þess að Evrópusambandið byggir eina meginstoð Evrópuhugsunarinnar á óheftum markaðsaðgangi, að Evrópusambandið skyldi sýna þá miklu stífni í þessum efnum sem raun bar vitni. Því ef við horfum á þetta frá okkar sjónarhóli, ef það hefði orðið niðurstaðan sem Evrópusambandið vildi á sínum tíma, þá var verið að draga úr fríverslun að þessu leytinu í Evrópu.

Það sjá allir að það rímar mjög illa við þær hástemmdu yfirlýsingar sem uppi hafa verið. Þetta voru auðvitað býsna miklir hagsmunir fyrir okkur. Það hefði munað okkur í tollum um 200--300 millj. kr., hefði væntanlega algjörlega eyðilagt þennan möguleika á útflutningi og eyðilagt þar með þessi viðskiptasambönd milli okkar og Póllands.

[15:30]

Ég kýs að ræða þetta og rifja aðeins upp vegna þess að þetta snertir á vissan hátt það sem mér hefur fundist ákveðin tilhneiging innan Evrópusambandsins. Annars vegar vitum við að grundvallaratriði í Evrópuhugsjóninni er hugmyndafræðin um hinn frjálsa innri markað, sem við öll skiljum. Við gerum okkur grein fyrir að hann getur skipt gríðarlega miklu máli. Við sem trúum að í frjálsum viðskiptum þjóða í milli sé fólginn drifkraftur og möguleiki á aðgangi að mörkuðum, ekki síst fyrir hinar veikari þjóðir, höfum af því áhyggjur þegar við finnum að innan Evrópusambandsins eru sjónarmið sem lúta fremur að því að búa til girðingar en hið gagnstæða. Í því sambandi er hægt að vekja athygli á ýmsum undarlegum yfirlýsingum fulltrúa bæði Frakklands og Þjóðverja í þá veru. Þeir hafa, nokkuð ógreinilega þó, gefið til kynna að ýmislegt í fari Evrópusambandsins sé óhagkvæmt fyrir iðnað og framleiðsluvörur þessara tilteknu þjóða.

Þegar við stækkum hinn frjálsa, stóra markað og drögum úr og afnemum tollahindranir í viðskiptum á þeim markaði hefur það auðvitað áhrif á stærstu ríkin, ríkustu ríkin þar sem framleiðslan er dýrust. Þetta þekkjum við. Þess vegna er óhugnanlegt að hugsa til þess að það glitti í sjónarmið af því tagi sem heyrst hafa í ummælum hjá Chirac og Schröder. Menn hafa vakið athygli á því að þessi þróun kunni á einhvern hátt að vera ógnun við grundvöll iðnaðarframleiðslunnar í þessum ríkjum því að auðvitað verður að taka súrt með sætu í þessum efnum. Þegar tekin er ákvörðun um að verða hluti af þessu stóra markaðssvæði eru menn um leið að taka ákvörðun um að það geti leitt til tilfærslna innan svæðisins. Það er auðvitað eðli þessa máls.

Mér finnst því, virðulegi forseti, ástæða til, vegna þess að nú er rætt um Evrópumál á breiðum grundvelli og fullt tilefni til þess, að vekja athygli á að þarna eru tiltekin hættuboð sem ástæða er til fyrir okkur að hafa nokkur orð um.

Í þeirri umræðu sem fram fór innan utanrmn., eins og fram kemur í nál. hennar, var horft til þeirra afleiðinga sem stækkun Evrópusambandsins og stækkun EES-svæðisins hefði á vinnumarkað þessara ríkja. Þessi mál hafa verið rædd fyrr í dag og kannski ekki ástæða til að orðlengja það. Hins vegar er óhjákvæmilegt fyrir okkur að beina athygli okkar að því að hugmyndin um hina frjálsu för launafólks innan EES-svæðisins er grundvallaratriði í EES-samningnum og grundvallaratriði í hugmyndafræði Evrópusambandsins. Við getum sagt að þetta sé ein af þremur eða fjórum meginstoðum Evrópusambandsins, þ.e. hugmyndin um að fólk sem býr á einum stað innan hins Evrópska efnahagssvæðis geti unnið hindrunarlaust alls staðar innan þess svæðis. Á þessu byggir Evrópusambandið og þetta er Evrópusambandið í hnotskurn. Sú hugsun að svæðið sé eitt atvinnusvæði, að fólk, hvort sem það býr í Portúgal, á Íslandi, í Póllandi eða Þýskalandi, geti valið sér vinnustað á grundvelli tiltekinna reglna og farið til vinnu þar sem því hentar á þessu svæði. Út á það gengur þetta. Á þessu eru pólitískar skýringar. Við teljum að með þessu sé stuðlað að friðsamlegri sambúð þessara þjóða en á þessu eru líka efnahagslegar skýringar. Þetta er einnig talið munu leiða til hagkvæmni og þess vegna sé þetta nauðsynlegt.

En þegar til stykkisins kemur er athyglisvert að allar gömlu þjóðir hins Evrópska efnahagssvæðis, við erum ekki undantekning frá því, eru í óðaönn að sinna þeirri viðleitni sinni að reyna að koma í veg fyrir að þessi þáttur Evrópusambandshugsjónarinnar taki gildi. Út á það gengur þetta. Við fengum hér lista, dagsettan 5. febrúar, um hin gömlu ríki og samkvæmt honum er komið á daginn að alls staðar er viðleitnin hin sama. Við erum í raun ekki að opna fyrir þetta aðgengi fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Í Þýskalandi, stærsta ríki Evrópusambandsins, lá fyrir frá upphafi, sem kom t.d. glögglega fram í heimsókn okkar til Póllands, að þeir hygðust ekki veita nýju ríkjunum aðgang fyrr en eftir fimm eða kannski sjö ár. Við sjáum að í þessu er dálítill tvískinnungsháttur. Annars vegar er rætt um mikilvægi þess að stækka þetta allt saman en hins vegar erum við öll upp fyrir haus önnum kafin við að búa til reglur sem miða að lengri aðlögunartíma.

Ég er ekki að gera lítið úr þörfinni á aðlögun. Við vitum að á svæðinu eru mjög ólíkar þjóðir sem safnast saman inn á sama markaðinn. Annars vegar hinar forríku þjóðir Vestur-Evrópu og hins vegar miklu fátækari þjóðir. Auðvitað er það mikið aðdráttarafl fyrir þessar þjóðir að eiga þess kost að komast inn í ríkara samfélag og njóta kosta þess, m.a. velferðarkerfisins og annars slíks. Hins vegar er augljóst hvað hér er að gerast.

Þetta birtist okkur einnig í því að áhyggjur fara vaxandi hjá mörgum þjóðum innan Schengen-samstarfsins af afleiðingum þess samstarfs. Við vitum að sú staðreynd að ytri landamæri Evrópusambandsins og Schengen-svæðisins eru að stækka hefur afleiðingar og áhrif á alla hina pólitísku umræðu, jafneldfim og hún er. Þetta er annað atriði sem mér fannst nauðsynlegt að vekja athygli á, sem á vissan hátt er í mótsögn við þá grundvallarhugmyndafræði sem Evrópusambandið byggir á, einn meginþáttinn í allri Evrópuhugsuninni.

Enn eitt grundvallaratriði í Evrópuumræðunni er spurningin um hið sameiginlega myntkerfi, evruna. Við þekkjum hugmyndafræðina á bak við það, að með því að hafa myntsvæðið stórt verði hinn viðskiptalegi kostnaður minni. Það að eiga viðskipti milli margra ríkja með sömu mynt dregur úr viðskiptakostnaði þó að ýmsir annmarkar séu á þessu fyrirbrigði. En við sjáum líka að þau tvö ríki sem áttu hvað stærstan þátt í að koma á evrufyrirkomulagi og margir töldu að yrðu kjölfestan, akkerið í þessu samstarfi, þ.e. Þjóðverjar og Frakkar en alveg sérstaklega Þjóðverjar, eru í óðaönn að finna leiðir til þess að komast undan þeim skuldbindingum sem óhjákvæmilega fylgja því að verða hluti af hinum evrópska myntmarkaði. Við vitum að þessum löndum gengur hálfilla að koma heim og saman sínum efnahagslegu bókum. Þess vegna eru þau í óða önn að reyna að fá undanþágur frá slíkum grundvallaratriðum.

Virðulegi forseti. Ég hef nefnt þrjú atriði sem öll er hægt að segja að liggi til grundvallar í evrópsku efnahagssamvinnunni, grundvallaratriði innan Evrópusambandsins. En þau eru öll því marki brennd að stórar þjóðir leggja í raun til atlögu við þann grundvöll, á sviði þess sem menn hafa kallað frjálsa för launafólks, varðandi hinn innri markað og síðast en ekki síst evrópska myntsvæðið, evruna sjálfa sem stendur greinilega á mun fúnari fótum en menn ætluðu í upphafi.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að þetta mál hlyti að verða eitt af stóru málunum sem við fengjumst við í þinginu í vetur. Við tökumst á við heilmikið verkefni, þ.e. að verða aðilar að stærra Evrópsku efnahagssvæði með kostum þess og göllum. Í ljós hefur komið að staða okkar í þessu ferli er sterk. Evrópska efnahagssvæðið stendur styrkum fótum. Það hefur staðist þá miklu áraun sem var að búa til þetta stóra Evrópska efnahagssvæði. Við höfum lent í ákveðnum vandræðum í einstökum tilvikum varðandi Evrópusambandið. Þar innan er tilhneiging í þá átt að verja múra, gagnstætt þeirri hugsun sem það sjálft byggir á.

Aðalatriðið í hinu pólitíska samhengi innan lands finnst mér þó sú staðreynd að þessi umræða fer fram með allt öðrum hætti en sú sem við sem sátum á Alþingi veturinn 1991--1992 urðum vitni að. Þá fóru fram heiftarlegar umræður og menn fór dagfari og náttfari til að berjast í þessu mikla máli. Nú er einfaldlega búið til nál. sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka skrifa upp á. Þetta er að mínu mati til marks um þáttaskil í hinni pólitísku umræðu og sýnir fyrst og fremst sterka stöðu hins Evrópska efnahagssvæðis sem pólitískrar niðurstöðu í Evrópuumræðunni. Þetta ætti að verða okkur leiðarljós í framtíðinni og sýna okkur að við þurfum ekki að vera að þessu Evrópusambandsdekri, eins og Samf. hefur verið með, reyndar með hangandi hendi í vetur, heldur getum við auðveldlega byggt Evrópustefnu okkar á hinu Evrópska efnahagssvæði sem hefur reynst okkur vel eins og Alþýðusamband Íslands hefur bent á. Það stendur styrkum fótum eins og samningsgerðin við Evrópusambandið hefur leitt í ljós.