Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:13:12 (5035)

2004-03-09 16:13:12# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði þá játningu hér sem gaman var að heyra, að hann væri sósíalisti. Nú er það svo að Samfylkingin heitir á frönsku Alliance socialiste og ég býð hv. þm. (Gripið fram í.) hér með velkominn í þann hóp. Allir erum við sósíalistar upp á frönsku.

Staðreyndin er einfaldlega þessi að munurinn á umræðunni hér í dag og oft áður birtist fyrst og fremst í því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er að breyta afstöðu sinni. Formaður Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur komið hingað og lýst þeirri skoðun flokksins sem hann mun hafa tekið upp fyrir nokkru að þeir eru ekki lengur þeirrar skoðunar að gera eigi tvíhliða samning við Evrópusambandið. Þeir ætla ekki að hrófla við EES. Þetta er stefnubreyting.

Hv. þm. kom hér líka og sagði: ,,Ég er Evrópusinni.`` Hv. þm. kom og sagði: ,,Ég er jafnaðarmaður``, að vísu róttækur sem mun vera töluvert annað en einhverjir miðsæknir jafnaðarmenn. Allt hnígur þetta að einum ósi. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er að breyta afstöðu sinni til Evrópu og það er ekkert skrýtið. Það er jákvætt fyrir alla. Kannski tengist það því sem hv. þm. var að lýsa hérna áðan, að sumir af þeim flokkum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er í alþjóðlegu sambandi við eru Evrópusinnar nýlega. SF í Danmörku er orðið að Evrópusinnuðum flokki. Það var ágæt vinkona hv. þm., Margrete Auken, Evrópusinni sem einmitt steypti af stóli toppframbjóðanda SF sem hafði verið á móti Evrópusambandinu. Hv. þm. man nú kannski eftir átökunum milli Pouls Nyrups Rasmussens og Svends Aukens, bróður Margrete, hjá jafnaðarmönnum. Þess vegna hefur SF komið með þetta ágæta slagorð: Hvers vegna að kjósa Rasmussen þegar Auken er í boði?