Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:15:28 (5036)

2004-03-09 16:15:28# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að okkur hinum í bandalagi vinstri grænna flokka á Norðurlöndunum finnst einmitt að þeir séu dálítið að linast, SF-arar í Danmörku. Ekki hef ég átt í erfiðleikum með að velja á milli þeirra Margrete Auken og Pernille Fram og kosið hina síðarnefndu sem er mjög gagnrýnin á Evrópusamrunann. Það eiga þessir flokkar yfirleitt sameiginlegt og þeir eru ákaflega gagnrýnir á margt í Evrópusamrunanum þó að þeir hafi mismunandi afstöðu enda koma þeir frá mismunandi löndum og að sjálfsögðu er ekkert að því að ólíkar áherslur í einstökum málum rúmist innan flokka sem vinna saman á grundvelli breiðra meginatriða í pólitík.

Það er fyrst og fremst einn gríðarlegur meginmisskilningur hér í máli formanns Samf. og ég veit að það hryggir hann mjög þegar ég upplýsi það. Það er að það sem ég hef sagt hér í dag boðar enga stefnubreytingu af hálfu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það vill svo til að ég hef vitnað í þáltill. sem af undarlegum ástæðum hefur farið fram hjá annars tiltölulega vel lesnum --- eða a.m.k. læsum --- þingmönnum Samf. Þessi þáltill. er endurflutt líklega í fjórða sinn hér á þinginu. Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að eitt af því sem við eyddum tíma í strax í aðdraganda stofnunar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs --- löngu á undan Samf. sem fann svo upp Evrópumálin tveim, þrem árum síðar --- var að fara mjög rækilega í gegnum áherslur okkar í alþjóðamálum og leggja grunninn að þeirri stefnu, m.a. að þessu leyti, sem við höfum síðan byggt á. Hún er skrifuð í stefnuskrá okkar og hefur birst í þessari till. til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum sem hefur verið ítrekað endurflutt hér á þingi og legið fyrir óbreytt.

Ef hún er svona mikil uppgötvun, þessi tillaga, og tíðindi fyrir formann Samf. og aðra þingmenn þess flokks skýrist það af öðru en því að þar sé um stefnubreytingu að ræða. Menn hafa þá bara einfaldlega ekki kynnt sér hana fyrr en nú og ekki áttað sig á því hvar við stöndum í þessum efnum. En þar hefur ekki orðið um stefnubreytingu að ræða, aldeilis ekki.