Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:24:26 (5040)

2004-03-09 16:24:26# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að rifja upp og velta fyrir mér hvað það þýddi að sjávarútvegsstefna ESB yrði tekin upp hér á landi og að Ísland mundi missa fullveldið yfir 200 mílna efnahagslögsögunni. Einhver kynni að mótmæla því að við værum að missa fullveldið og segja heldur að takmarka fullveldið. Í þeirri takmörkun á fullveldi felst þá væntanlega að ákvörðun um heildarkvóta, kvóta á einstakar tegundir, veiðitímabil, skiptingu kvóta milli ríkja og flota, ákvarðanir um stærð flotans o.s.frv. færi yfir til ESB.

Eðlismunur er á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu og því evrópska. Íslenska kerfið er byggt upp án ríkisstyrkja og fylgir sjónarmiðum um sjálfbæra þróun fiskstofna. Fiskveiðistefna ESB byggir fremur á félagslegum grunni og byggðasjónarmiðum en beinni verðmætasköpun, enda leggur ESB til gríðarlega styrki til sjávarútvegsins úr sameiginlegum sjóðum.

Í viðtölum mínum og annarra þingmanna í utanrmn. við þingmenn Evrópuþingsins nýlega kom glöggt fram að þeim þykir sjávarútvegsstefna ESB ekki til fyrirmyndar og jafnframt að aðrar þjóðir líta upp til Íslendinga varðandi fiskveiðistjórn. Nú veit ég að hv. þm. er ágætlega að sér í þessum málum en ég hlýt samt að spyrja aftur: Hefur hann ekki áhyggjur af því, ef Samf. nær því nú fram að sækja um aðild að Evrópusambandinu, hvað verði um okkur Íslendinga hvað þessa mikilvægu hagsmuni okkar varðar?