Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:38:53 (5046)

2004-03-09 16:38:53# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi í dag er hann greindi stefnu Framsfl., að Framsfl. hefur aldrei útilokað aðild að Evrópusambandinu svo við höldum því til haga. Það er hins vegar ekki stefnumið hans eins og er. Enn eru menn að horfast í augu við það hvaða uppfærslu við náum á EES-samningnum.

Ég sagði í dag að mér fyndist, í ljósi þess hve mikið Evrópusambandið hefði breyst og stjórnkerfi þess, að hafi verið fullveldishalli á því í upphafi þá sé hann ekki minni í dag eins og stjórnkerfisbreytingarnar hafa þróast. Miðað við þá geysilegu stækkun sem orðið hefur á Evrópusambandinu er einkennilegt að menn treysti sér ekki til þess að skipta um skoðun og hangi í fyrri afstöðu.

Mér fannst heldur kúnstugt, herra forseti, þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson talaði um það ítrekað og sagði: Ég sagði ykkur að þetta yrði farsælt. Sumir háttvirtra þingmanna sáu það þá, aðrir hafa séð það seinna. En mér finnst eðlilegt að menn breyti um afstöðu miðað við þær miklu breytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu og á Evrópu á þessum tíma.