Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:56:06 (5048)

2004-03-09 16:56:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri líflegu umræðu sem hér hefur átt sér stað á milli hv. þingmanna sem tóku þátt í henni. Það var hins vegar tvennt sem stakk mig í umræðunni, sem snertir með beinum hætti EES-samninginn, sem mig langar aðeins að koma inn á.

Fyrra atriðið er þegar menn leggja það mat á að EES-samningurinn sé okkur fullnægjandi til lengri tíma og hið seinna er þegar hv. þm. gera lítið úr þeim þætti sem EES-samningurinn á í þeirri velgengni sem þjóðin hefur búið við undanfarinn áratug.

Ég ætla að byrja á að undirstrika það sem væntanlega flestir hv. þm. geta verið sammála um að EES-samningurinn er að sjálfsögðu lífæð Íslands í alþjóðaviðskiptum, enda gefur hann Íslandi aðgang að hinum svokallaða innri markaði Evrópusambandsins með fjórfrelsinu svokallaða, núna þegar rúmlega 60% af útflutningi Íslendinga til landa ESB og um 58% alls innflutnings kemur frá ESB til landsins.

EES-samningurinn hefur reynst Íslendingum drjúgur og má færa sterk rök fyrir því að sá stöðugleiki sem hefur einkennt íslenskt efnahagslíf undanfarin ár sé fyrst og fremst EES-samningnum að þakka. Einnig hefur EES-samningurinn stuðlað að hinu gjörbreytta samfélagi sem við lifum nú í. En flestar af þeim breytingum sem við höfum kynnst undanfarinn áratug á sviði frelsis og niðurfellingar hafta er EES-samningnum að þakka.

Þetta sést vel þegar við skoðum þær breytingar á löggjöfinni sem hafa átt sér stað undanfarinn áratug. Nánast allar veigamestu breytingarnar á viðskiptalöggjöfinni, samkeppnis-, kauphallar-, fjarskipta-, persónuverndar-, atvinnumála-, fjármagns- og umhverfislöggjöf eru komnar til vegna EES-samningsins. Við verðum því að breyta löggjöfinni í samræmi við tilskipanirnar sem koma frá Brussel.

Einnig er fróðlegt að skoða þau svið sem EES-samningurinn tekur ekki til, en þar hefur lítið sem ekkert gerst undanfarinn áratug. Þar má minnast á landbúnaðinn, sjávarútvegsmálin, jafnvel málefni ÁTVR, málefni Ríkisútvarpsins, landið eitt kjördæmi o.s.frv. Þetta eru svið sem EES-samningurinn tekur að sjálfsögðu ekki neitt tillit til, enda hefur lítið sem ekkert gerst í þeim málaflokkum.

Hins vegar hefur mikilvægi EES-samningsins minnkað með aukinni samvinnu landa ESB. Einnig hefur hlutverk stofnana ESB gjörbreyst frá því að EES-samningurinn var gerður og hafa tengsl EES-ríkjanna við ESB sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir ekki fylgt þeim breytingum eftir. Til dæmis gerir EES-samningurinn ekki ráð fyrir samvinnu við Evrópuþingið. En undanfarin ár hafa völd og áhrif þingsins verið stórlega aukin vegna aukinnar áherslu á lýðræði innan ESB.

Sömuleiðis hefur verið dregið úr völdum framkvæmdastjórnar ESB og völd ráðherraráðsins verið aukin. En EES-samningurinn lagði á sínum tíma höfuðáherslu á samvinnu við framkvæmdastjórnina. EES-samningurinn veitir heldur ekki fullan aðgang að innri markaðnum, þar sem hann tekur m.a. ekki til allra sjávarafurða og landbúnaðarafurða. EES-samningurinn veitir ekki fullan aðgang að tollabandalagi ESB. EES-samningurinn tekur heldur ekki tillit til þeirra málaflokka sem sífellt eru að verða mikilvægari, svo sem á sviði utanríkismála, stjórn peningamála, efnahagssamvinnu eða samvinnu í dóms- og lögreglumálum.

Enn ein rökin fyrir því af hverju EES-samningurinn er ekki fullnægjandi eins og staðan er í dag eru þau að nú flæða reglur og tilskipanir frá ESB vegna EES-samningsins yfir íslenskt samfélag sem Íslendingar hafa lítið sem ekkert um að segja. Í raun tekur Ísland við meiri hluta af þeim lögum sem ESB setur, eða um 80%. Í þessu sambandi ber að minnast þess að EES-samningurinn tekur sífelldum breytingum og það gerir hann mjög sérstakan ef við berum hann saman við aðra alþjóðasamninga.

[17:00]

Aðgangur íslenskra stjórnvalda að ákvarðanatöku ESB er mestur í upphafi en er enginn á þeim vettvangi þar sem endanlegar ákvarðanir eru teknar. Til að mynda hafa EES-ríkin enga aðkomu að stefnumörkun ESB, enga aðkomu að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, enga aðkomu að störfum ráðherraráðsins, enga aðkomu að vinnunefndum ráðherraráðsins en þar taka tillögur oft miklum breytingum, enga aðkomu að störfum leiðtogafundar ESB, enga aðkomu að störfum Evrópuþingsins en geta þó sent þangað inn athugasemdir. Sama má segja um aðkomu að fundum ráðherraráðsins en EFTA-ríkin geta aðeins sent þangað inn athugasemdir. Eina raunverulega þátttaka EFTA-ríkjanna í ákvarðanatöku ESB er í gegnum þátttöku sérfræðinga í fundum framkvæmdastjórnarinnar en eftir það geta tillögur þó hæglega breyst til muna.

Ísland hefur því mjög takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á ákvarðanatöku sem snertir innri markaðinn og tekur ekki þátt í þeim málaflokkum ESB-samstarfsins sem sífellt eru að verða mikilvægari, svo sem peningamálum, utanríkis-, dóms- og lögreglumálum. Ísland og önnur EFTA- og EES-ríki hafa engin áhrif á frumrétt ESB. Þau hafa ekki atkvæðisrétt þegar fjallað er um afleidda löggjöf eða breytingar á samstarfinu. Svona mætti lengi telja.

Með inngöngu í ESB mundi hins vegar skapast möguleiki til að hafa áhrif, t.d. með réttinum til að greiða atkvæði í nefndum og stjórnum ESB og aðgengi sérfræðinga að þeim mundi aukast. Í raun má segja að fullveldi Íslands sé í meiri hættu með núverandi kerfi en ef við værum þátttakendur í ESB. Innganga í Evrópusambandið er því að mínu mati liður í sjálfstæðisbaráttu frekar en liður í afsali fullveldis eins og sumir virðast halda að þátttaka okkar í ESB mundi þýða.

Annað sem skiptir gríðarlega miklu máli eru þau áhrif sem dómstóll ESB hefur nú þegar á íslenskan rétt. Niðurstöður Evrópudómstólsins hafa réttaráhrif á Íslandi, m.a. í gegnum EFTA-dómstólinn sem lítur á niðurstöður Evrópudómstólsins við úrslausn sinna mála. Túlkun Evrópudómstólsins á allri Evrópulöggjöfinni hefur því gríðarleg áhrif á íslenskan rétt, en eins og áður hefur verið nefnt er íslenskum stjórnvöldum skylt að lögleiða stærstan hluta reglugerða ESB í mörgum málaflokkum.

16. desember 1999 féll tímamótadómur í Hæstarétti sem hefur verið kallaður Erlu Maríu dómurinn. Þar var fallist á að EFTA-ríki gæti orðið skaðabótaskylt ef lög ESB væru ekki lögleidd á réttan hátt í innlendan rétt viðkomandi ríkis. Íslensk löggjöf reyndist ekki vera í samræmi við tilskipun frá ESB og því myndaðist skaðabótaskylda á ríkið.

Ef Íslendingar gengju í ESB fengjum við fullan aðgang að pólitískri og efnahagslegri stefnumótun sambandsins. En með EES-samningnum höfum við einfaldlega ekki aðgang að henni. Enn fremur fengist fullur aðgangur að viðskiptasamningum ESB við önnur ríki, en ESB er stærsta viðskiptablokk í heimi, talsvert stærri en t.d. Bandaríkin. Með inngöngu í ESB fengist fullur aðgangur að tollabandalaginu, efnahags- og myntbandalaginu, sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum, utanríkis- og öryggismálum, byggðamálum, hlutdeild í fjárlögum sambandsins og í samstarfi í innanríkis- og dómsmálum. Einnig fengist aðgangur að leiðtogaráðinu, ráðherraráðinu, Evrópuþinginu, framkvæmdastjórninni, Evrópudómstólnum og hinum og þessum stofnunum Evrópusambandsins.

Áhrif ríkja innan ESB ráðast að verulegu leyti af því hversu mikilla hagsmuna þau hafa að gæta. Það hefur margoft sýnt sig að smáríki innan ESB ná einna best fram sínum hagsmunum, enda eru þeir oft mun sérhæfðari en þeir hagsmunir sem stóru ríkin hafa. Ríkin innan ESB beita sér einfaldlega í þeim málum sem skipta þau mestu máli. Þannig hafa Danir t.d. ekki einu sinni mætt á fundi ESB um ólífuolíurækt eða tóbaksrækt, en hins vegar hafa Danir tekið forustu innan ESB í umhverfismálum vegna þeirrar miklu sérfræðiþekkingar sem Danir búa yfir á því sviði.

Því má ætla að Íslendingar gætu tekið forustu í sjávarútvegsmálum ESB, enda er sérfræðiþekking Íslendinga á sviði sjávarútvegsmála gríðarlega mikil en þrátt fyrir fámenni eru Íslendingar með mestu fiskveiðiþjóðum heims. En á meðan við erum fyrir utan ESB höfum við engin áhrif á sjávarútvegsstefnu ESB.

Norðurlandasamstarfið hefur verið mikið og gott undanfarinn áratug. En það er fróðlegt að velta því fyrir sér að ef Ísland og Noregur færu inn í ESB yrði vægi Norðurlandaþjóðanna samanlagt meira en einstöku stóru ríkjanna. Þar af leiðandi yrðu Norðurlandaþjóðirnar að leiðandi afli innan ESB þrátt fyrir tiltölulega fáa íbúa, ef þær kærðu sig um það.

Hins vegar langar mig að lokum að koma hérna að grundvallaratriði í umræðunni og það snýst um að ef ekki verður sótt um inngöngu í ESB mun aldrei reyna á aðildarviðræður. Því er erfitt að tala um þær niðurstöður hvað þátttaka í ESB mun í raun og veru þýða fyrir Ísland. Í aðildarviðræðum ESB við ný ríki hefur ætíð verið tekið tillit til hagsmuna viðkomandi ríkis, enda er það ekki ESB í hag að þrengja að nýjum ríkjum í ESB. Í tæplega 50 ára sögu Evrópusambandsins eru þess engin dæmi að gengið sé gegn mikilvægum hagsmunum ríkja. Slíkt samræmist ekki stefnu og markmiðum sambandsins. Það er því tekið mikið tillit til allra ríkja í samstarfinu og vægi smáríkja er langt umfram stærð. Og staðreyndin er sú að smærri ríkjum hefur einfaldlega gengið mjög vel að ná fram markmiðum sínum á þeim sviðum þar sem þau eiga hagsmuna að gæta og búa að sérþekkingu.

Ef ESB væri ósveigjanlegt hvað snertir þær kröfur og reglur sem gilda í ESB þyrftu viðræður við ný ríki aldrei að eiga sér stað því annaðhvort gengju nýju ríkin undir reglur ESB eða ekki. En þannig er það augljóslega ekki og því er farið í sérstakar aðildarviðræður þegar ný ríki sýna áhuga á inngöngu í ESB.

Rétt er að hafa það í huga að aðildarsamningar hafa sömu réttarstöðu og eldri sáttmálar og breytast í reglur ESB við inngöngu nýrra þjóða í sambandið. Allt tal um að það sé ekkert hægt að semja er því algjörlega út í hött að mínu viti.

Að lokum langar mig að taka fram að það er hvorki heimska né tilviljun að allar þjóðir Evrópu hafa annaðhvort sótt um aðild að Evrópusambandinu eða eru nú þegar aðilar.