Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:36:09 (5057)

2004-03-09 17:36:09# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú gömul saga og ný að þegar þjóðir og menn verja hagsmuni sína þá lenda menn oft í mótsögn við sjálfa sig. Það gerist því miður oft í alþjóðlegum viðskiptum og það er erfitt að koma upp föstum reglum í alþjóðlegum viðskiptum.

Í þessu tilviki eru það hagsmunaaðilar á Írlandi og Bretlandi sem krefjast þess að þessi rannsókn fari fram. Þeir krefjast þess að sjálfsögðu að innflutningur annarra ríkja verði takmarkaður til þess að vernda eigin framleiðslu, svo einfalt er það. Vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu en erum samt aðilar að innri markaðnum þá stöndum við í þessum sporum. Hver niðurstaðan í þessu verður skal ég ekki fullyrða. Við skulum vona það besta.

En ég er sammála hv. þm. um að menn eru komnir í mótsögn við eigin stefnu og hugmyndafræði. En það hefur oft komið fyrir áður og ég er ekki alveg grunlaus um að það hafi líka komið fyrir Íslendinga.