Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:40:58 (5059)

2004-03-09 17:40:58# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., JKÓ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Jón Kr. Óskarsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um nýbyggingu við Landspítala -- háskólasjúkrahús. Ég tel að núverandi ástand í málefnum LSH sé algerlega óviðunandi. Landspítali og Borgarspítali voru sameinaðir fyrir nokkrum árum. Sú sameining átti að stuðla að betri nýtingu fjármagns, betri nýtingu starfsliðs, betra sjúkrahúsi og betri heilbrigðisþjónustu.

Persónulega tel ég að sameiningin komi aldrei að þeim notum sem til var ætlast nema LSH sé undir sama þaki og undir einni virkri stjórn. Það er hörmulegt að hugsa til þess að í byrjun 21. aldar skuli Íslendingar bjóða upp á þá aðstöðu sem sjúklingum er veitt á LSH. Nýlega var tekinn í gagnið Barnaspítali Hringsins, nýtt og glæsilegt sjúkrahús og allir himinlifandi yfir aðstöðunni þar en hann er ekki nýttur nema að nokkru leyti vegna skorts á fjármagni. Geðdeild Landspítalans á í miklum erfiðleikum með að veita þjónustu sem eðlileg getur talist og sama gildir um göngudeild krabbameinsdeildar. Það væri áhugavert fyrir hæstv. heilbrrh. að kynnast þeirri aðstöðu sem fólk þarf að búa við þar. Það situr í um 10--12 fermetra herbergi, í stólum sem minna á rakarastóla, situr þar allan daginn meðan lyfjum er dælt í viðkomandi nánast fyrir opnum tjöldum.

Svona væri hægt að halda lengi áfram. Einn kunningi minn sem er læknir sagði mér fyrir helgi: Heilbrigðiskerfið er allt í upplausn, það er að hrynja.

Virðulegur forseti. Ég styð heils hugar þá hugmynd er liggur að baki þessari þáltill. nokkurra jafnaðarmanna í Samf. Ég yrði stoltur af því, sem fyrrverandi starfsmaður Landssímans, ef tekjur af Símanum, þegar hann verður seldur, mundu að nokkru leyti ganga upp í að byggja nýjan Landspítala. Ég væri stoltur af því að geta ornað mér við að ég, sem starfsmaður í rúm 40 ár hjá Landssímanum, leggi þar nokkrar krónur í nýtt háskólasjúkrahús.

Starfsfólk LSH og þeir sem þar þurfa þjónustu eiga að fá miklu betri aðstöðu en nú er til staðar. Gefum íslensku þjóðinni samþykkt á þessari till. til þál. í tilefni af 100 ára heimastjórn. Það væri vegleg gjöf til íslensku þjóðarinnar.