Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:44:13 (5060)

2004-03-09 17:44:13# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:44]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna framlagningu þessarar þáltill. hv. þm. Kristjáns L. Möllers um það mikilvæga þjóðþrifamál sem uppbygging Landspítala -- háskólasjúkrahúss á einum stað er.

Í lok febrúarmánaðar heimsóttu allir þingmenn Samf. hinar ýmsu deildir Landspítala -- háskólasjúkrahúss rétt eins og þeir heimsóttu allar deildir Háskóla Íslands í mánuðinum þar á undan. Þessi fordæmalausa heimsókn þingflokks á Landspítalann var afskaplega viðamikil og tók marga daga. Farið var í á annan tug bygginga á vegum spítalans. Tilgangurinn var m.a. að hlusta milliliðalaust á starfsfólk þessa stærsta vinnustaðar landsins. Ferð þeirri mun þingflokkurinn seint gleyma enda komu þar fram margar og góðar upplýsingar

Landspítalinn er stærsti vinnustaður landsins og fær um 10% af fjárlögum ríkisins. Það er því nauðsynlegt fyrir hvern þingmann að kynna sér þá stórkostlegu starfsemi sem þar fer fram.

Eitt atriði var eins og rauður þráður í máli flestra starfsmanna sem tóku á móti okkur. Það var staða húsnæðismála spítalans. Fólkið á spítalanum var almennt á því að gríðarlegum sparnaði mætti ná með uppbyggingu spítalans á einum stað. Nú þegar eru sumar þungavigtardeildir spítalans reknar á tveimur stöðum og dæmi eru um að starfsemi sé dreift um allan bæ. Hún fer jafnvel fram í mismunandi bæjarfélögum.

Það er rétt hægt að ímynda sér óhagræðið af slíku starfsumhverfi að ógleymdum kostnaðinum sem af því hlýst. Sameining spítalanna mun aldrei skila sér að fullu fyrr en við uppbyggingu spítalans á einum stað. Í heimsóknum þingmanna Samf. á spítalann kom fram að jafnvel mætti spara 10--15% rekstrarkostnaðar spítalans með uppbyggingu á einum stað. Svo að hv. þingmenn átti sig á því hvað það þýðir í tölum þá eru 10% 2,5 milljarðar kr. Til samanburðar má nefna að allur Háskóli Íslands kostar um 4 milljarða kr. árlega. Það er því ljóst að vel er hægt að nýta þessa 2--4 milljarða kr. sem hugsanlega væri hægt að spara í önnur þjóðþrifaverkefni.

Það kostar stundum að spara. Uppbygging Landspítalans á einum stað er gott dæmi um slíkt. Í þáltill. hv. þm. Kristjáns Möllers og annarra þingmanna kemur fram afskaplega sniðug hugmynd sem gerir uppbyggingu Landspítalans á einum stað raunhæfa og fyrirsjáanlega í náinni framtíð, þ.e. að tengja sölu Landssímans við uppbyggingu á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi.

Mikilvægt er að þegar Landssíminn verður loksins seldur verði söluandvirðinu vel varið og fari t.d. ekki í almennan rekstur eða í hina endalausu útþenslu ríkisvaldsins. Þá væri vel til fundið að verja söluandvirðinu til uppbyggingar á þjóðarspítala.

Þjóðin byggði Landssímann og á hann. Þjóðin þarfnast uppbyggingar Landspítala á einum stað. Þetta passar því vel saman. Hættan við jafnviðamikið verkefni og uppbygging Landspítalans augljóslega er er sú að fólk mikli verkið fyrir sér og dragi úr hömlu að hefjast handa. Þess vegna gerir hugmyndin um að verja söluandvirði Landssímans í uppbyggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss verkefnið raunsætt og, það sem meira er, fyrirsjáanlegt.