Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:48:01 (5061)

2004-03-09 17:48:01# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:48]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Mig langar í fáum orðum að taka undir efni þessarar till. til þál. um nýbyggingu við Landspítala -- háskólasjúkrahús, eða réttara sagt langar mig að fagna stuðningi Samf. við þetta verkefni, undirbúning að uppbyggingu Landspítalans, og fagna stuðningi Samf. við þá stefnu sem unnið er eftir af hálfu heilbrrn. og forustu Framsfl. í þessu máli.

Ég velti því fyrir mér þegar ég las greinargerðina með þáltill. áðan hvort flutningsmenn hefðu kynnt sér þá vinnu sem búið er að vinna og þá vinnu sem er í gangi, sem hefur einmitt þetta að markmiði, að byggja upp Landspítalann, færa hann undir eitt þak og nýta til fulls kostina við sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og ná fram þeirri fullu hagræðingu sem ætlunin var þegar sjúkrahúsin voru sameinuð.

En fyrst og fremst sá ég ástæðu til að kom í ræðustól og fagna stuðningi Samf. við það verk sem verið er að vinna núna undir forustu Framsfl. Það sem hins vegar kemur flatt upp á mig og hugsanlega einhverja aðra er þessi afstaða Samf. allt í einu að ráðast í þetta, vegna þess að við munum mörg eftir því sem kom fram í ræðu hv. formanns Samf. á svokölluðum haustfundi, minnir mig að hann hafi heitið, þar sem hann vildi meina að það væri ekki fyrst og fremst fjárskortur sem háði heilbrigðisþjónustunni. En það er ljóst að hér er um að ræða dýrt og viðamikið verkefni og ég hef sjálf úr þessum ræðustól hvatt til þess að í það væri ráðist að við tryggðum fjárframlög á fjárlögum til þess að hægt væri að ráðast í þetta verkefni, en spyr hvort þarna hafi orðið einhver stefnubreyting á.

Mér leikur líka forvitni á að vita og spyr: Ef ekki verður af sölu Landssímans, hvað vill Samf. gera þá? Ég sé ekki ástæðu til að hnýta þetta tvennt saman því að þó að okkur takist ekki að selja Landssímann og dráttur verði á því, finnst mér alveg einsýnt að heilbrigðiskerfið og Landspítali -- háskólasjúkrahús geta ekki beðið eftir því að peningarnir komi úr einhverri slíkri átt, heldur þurfum við að taka þá afstöðu sem fyrst í fjárlögum að veita nægilegt stofnfé til þessa viðamikla og bráðnauðsynlega verkefnis.

Eins og rakið er í greinargerð með þáltill. er því haldið fram, eins og ég hef gert áður, að full hagræðing af sameiningunni náist ekki fyrr en búið er að ráðast í nýbyggingar og sameina þetta undir einu þaki. Hér er m.a. rakið að reknar séu tvær bráðamóttökur. Ég held að þær séu gott fleiri en tvær, ég held að þær séu fimm, bráðamóttökurnar sem reknar eru, og þó að við næðum ekki að sameina þær nema í tvær væri það strax til bóta. Og eins og ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar vakið athygli á erum við með margs konar annan rekstur sem heyrir undir sjúkrahúsið á fleiri en einum stað og það segir sig alveg sjálft að full hagræðing næst ekki fyrr en við erum búin að sameina þetta.

Herra forseti. Þetta vildi ég fyrst og fremst segja og ítreka enn og aftur ánægju mína með að Samf. skuli nú leggja áherslu á það að heilbrigðiskerfið þurfi aukin fjárframlög í stofnkostnað vegna Landspítalans, og ánægju mína með stuðning Samf. við þá vinnu sem verið er að vinna á þessu sviði.