Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:14:38 (5067)

2004-03-09 18:14:38# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég endurtek að ég er ekki hrifinn af þessum eina málslið tillgr. en vil gjarnan styðja hana að öðru leyti. Ég vona að það sé engin forsenda af hálfu flm. að málið fáist afgreitt að þessi tenging sé þarna til staðar. Ef málið nýtur að öðru leyti stuðnings hefði ég talið og ég marka það líka af því að hv. þm. Framsfl. sem talaði áðan, Jónína Bjartmarz, benti á þann þátt málsins að ef svo færi að ekki yrði af sölu Landssímans um sinn vilja menn náttúrlega ekki vera heftir af því að þar með komist menn ekkert áfram af því að engar tekjur hafi fallið til. Ég er ósköp einfaldlega að benda á að eignin er þá til staðar og hefur ekkert gufað upp, hún er þarna og það sem meira er þá mundi hún skila góðum arði á hverju ári. Það er kannski sagt að einhverju leyti í gamni en líka í alvöru að ef t.d. væri pólitísk samstaða um að ráðstafa öllum rekstrarhagnaði Landssímans eða arði sem hann hefur verið að greiða undanfarin ár í ríkissjóð á hverju ári í 10 ár í þetta verkefni, kannski 20 millj. kr., mætti gera gríðarlegt átak í þessum efnum. Það sem ynnist væri að við fengjum þessa peninga og ættum að því loknu áfram Landssímann okkar sem væri náttúrlega langbesti kosturinn.

Varðandi málin almennt á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hef ég fylgst með þeim lengi, allt frá dögum Ríkisspítalanna sálugu þar sem ég sat í stjórn á árunum 1984--1988, ef ég man rétt, og hef haft talsverð tengsl af ýmsum ástæðum og persónulegum að hluta til við þessa stofnun æ síðan. Þarna hafa auðvitað verið uppi ýmsar hugmyndir og við verðum að vera sanngjörn hvað það varðar að margt hefur verið þar í þróun. Sameiningin er tiltölulega nýtilkomin og sú ákvörðun sem ég lít svo á að sé loksins núna orðin endanleg, að fyrir valinu verði lóðin við Hringbraut, er nýleg. Hún er tiltölulega ný af nálinni þó að það hafi hins vegar verið gert ráð fyrir þeim möguleika lengi í skipulagsmálum, samanber hina frægu færslu Hringbrautar og fleira sem þessu tengist.