Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:36:14 (5077)

2004-03-10 13:36:14# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Mál Arons Pálma Ágústssonar kom fyrst til umfjöllunar í ráðuneytinu 4. september 1997 en viku áður hafði þessi drengur verið dæmdur af dómstóli í Texas í 10 ára fangelsi fyrir þau afbrot sem hefur verið lýst. Móðir hans óskaði eftir því að ráðuneytið beitti sér fyrir því að Aron yrði framseldur hingað til lands.

Sendiráði Íslands í Washington var þegar falið að kanna aðstæður piltsins og hvort unnt væri að óska eftir framsali hans og jafnframt fól sendiráðið ræðismanni Íslands í Hous\-ton að hafa samband við lögfræðinga og saksóknara til að afla upplýsinga um stöðu málsins og horfur. Allar götur síðan hefur sendiráðið og ræðismaðurinn beitt sér af alefli gagnvart yfirvöldum með bréfaskriftum, símtölum, tölvupósti og fundum í máli Arons. Í stuttu máli sagt hefur þessi viðleitni ekki borið þann árangur sem skyldi og hann ekki fengist framseldur til Íslands.

Sendiherrar Íslands í Bandaríkjunum hafa tvívegis farið formlega fram á það, bæði núv. sendiherra og fyrrv. sendiherra.

Nú þegar ljóst er að hann er laus úr fangelsi virðast engar formlegar leiðir vera lengur færar til að tryggja framsal Arons Pálma hingað til lands en utanrrn. er nú að kanna hvort einhverjir möguleikar séu á því að hann verði framseldur hingað til lands af mannúðarástæðum. Ég get ekki gengið lengra á þessu stigi en það er til athugunar. Þetta mál er hið furðulegasta og það skal sagt hér að við erum mjög ósáttir við samskipti við ríkið Texas í málinu. Það hefur komið skýrt fram og mun koma skýrar fram.