Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:42:15 (5080)

2004-03-10 13:42:15# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir ágæt svör. Málið sem við lásum um í DV um helgina um þennan unga mann er alveg ótrúleg sorgarsaga, alveg með ólíkindum að svona lagað skuli geta gerst.

Texas er reyndar langt frá Íslandi og löggjöf þar með allt öðrum hætti en hér og sem betur fer er löggjöf hér miklu mannúðlegri en við sjáum í þessu ótrúlega máli. Það er nánast með ólíkindum að það skuli hafa liðið 7 ár frá því að íslensk stjórnvöld hófu afskipti sín af málinu og enn hafi ekki náðst nein niðurstaða í því. Ég tek það fram að það er mjög virðingarvert og þakklætisvert að íslensk stjórnvöld skuli hafa beitt sér í málinu og ég er sannfærður um að þau hafa þrátt fyrir allt reynt að gera það sem þau gátu. En ég held að það hljóti að vera hægt að gera betur og að það hljóti að vera hægt að finna lendingu í málinu og fá hann framseldan til Íslands af mannúðarástæðum eins og hæstv. utanrrh. lýsti áðan.

Ég vona svo sannarlega að hægt verði að finna snara lausn á málinu og ég veit að þingflokkur Frálsl. er mér heils hugar sammála í því.