Fölsuð myndverk

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:57:57 (5086)

2004-03-10 13:57:57# 130. lþ. 81.1 fundur 476. mál: #A fölsuð myndverk# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Spurt er hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir því að samkvæmt lögum verði heimilað að eyða fölsuðum myndverkum.

Hin almenna heimild til eignaupptöku er í 69. gr. almennra hegningarlaga en þar segir að gera megi upptæka með dómi hluti sem orðið hafa til við misgerning. Þetta á þó ekki við um eignir manns sem ekkert er við brotið riðinn. Ekki hefur verið til umræðu að gera breytingu á þessari meginreglu refsilaga.

Þá er myndverk, þótt falsað sé, eign sem nýtur verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Ríkar ástæður þurfa að liggja til þess að stjórnvöld geti krafið eigendur falsaðra myndverka um að láta þau af hendi og er erfitt að sjá hvar eigi að láta staðar numið verði byrjað á slíku á annað borð. Í þessu sambandi ber að leggja áherslu á að það er á ábyrgð eiganda falsaðs myndverks að það fari ekki í umferð sem ófalsað verk. Þó hafa stjórnvöld gert ráðstafanir hvað varðar þau fölsuðu myndverk sem voru kveikjan að hinu svokallaða stóra málverkafölsunarmáli á síðasta ári. Búið var þannig um hnútana að skýrsla um rannsókn málsins var send til Listasafns Íslands til þess að myndir sem taldar voru falsaðar væru þekktar og gengju ekki kaupum og sölum. Á þessari stundu verður ekki séð að unnt sé að ganga lengra, og ítreka ég það enn að sú ábyrgð liggur hjá eigendum verkanna að þau komist ekki í umferð sem ófölsuð verk.