Greiðslur til fanga

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:06:27 (5090)

2004-03-10 14:06:27# 130. lþ. 81.2 fundur 574. mál: #A greiðslur til fanga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn beindi dóms- og kirkjumrn. erindinu til Fangelsismálastofnunar og fékk svohljóðandi bréf frá Fangelsismálastofnun, dags. 17. febrúar 2004, sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

,,Fangelsismálastofnun vísar til bréfs ráðuneytisins dags. 12. þessa mánaðar er fylgdi fyrirspurn á þingskjali nr. 865, um greiðslur til fanga.

Í fyrsta lagi er spurt um hvenær reglur um greiðslur dagpeninga til fanga voru endurskoðaðar síðast. Af þessu tilefni skal tekið fram að gildandi reglur um dagpeninga til fanga eru frá árinu 1998, sbr. reglugerð um vinnu, nám og dagpeninga til afplánunarfanga nr. 409/1998. Með reglugerð nr. 905/2002 var fjárhæð dagpeninga hækkuð úr 460 kr. í 580 kr.

Í öðru lagi er spurt um hvað miðað er við þegar ákvarðanir um greiðslur eru teknar. Fangelsismálastofnun hefur ekki upplýsingar um hvort einhver tölulegur grundvöllur hafi legið fyrir við ákvörðun dagpeninga árið 1998. Þegar Fangelsismálastofnun gerði tillögu um breytingu á fjárhæð dagpeninga í desember árið 2002 voru breytingar á vísitölu neysluverðs og launa frá setningu reglugerðarinnar frá 1998 hafðar til hliðsjónar.

Í þriðja lagi er spurt um hvort fangar í gæsluvarðhaldi eða einangrunarvist fái greidda dagpeninga. Fangar í gæsluvarðhaldi fá greidda dagpeninga óháð því hvort þeir eru í einangrun eða ekki. Aftur á móti skal tekið fram að algengt er að fangar sem fremja brot á reglum fangelsis séu beittir þeim agaviðurlögum að verða sviptir dagpeningum að hálfu í tilgreindan tíma.``