Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:24:29 (5099)

2004-03-10 14:24:29# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Hæstv. landbrh. sagði að matvælalöggjöfin væri verk Alþingis og þá hlýtur það líka að vera verk Alþingis að breyta þeirri löggjöf ef hún er ekki sanngjörn eða nær þeim markmiðum sem við viljum að hún nái og taki til. Hæstv. ráðherra hefur skipað nefnd til þess að kanna breytingar á þessum lögum. Það finnst mér gott. Ég sakna reyndar að hann skyldi ekki nefna hvenær hún á að ljúka störfum. Fróðlegt væri að heyra það.

Jafnframt tel ég að hæstv. ráðherra geti nú þegar beitt sér fyrir því að gerð verði úttekt á eða unnar tillögur um lágmarksbúnað og aðstöðu heima á bæjum til þess að mega vinna mjólk, slátra og verka kjöt. Þetta hefur oft verið rætt hér áður og ef ég man rétt þá var slík nefnd einu sinni að störfum á vegum ráðuneytisins. Hún fjallaði um lágmarksbúnað til að reka lítil sláturhús.

Ég tel því að hæstv. ráðherra geti flýtt þarna verulega fyrir með því að láta vinna nú þegar framkvæmdartillögur.