Heimagerðar landbúnaðarafurðir

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:25:48 (5100)

2004-03-10 14:25:48# 130. lþ. 81.3 fundur 674. mál: #A heimagerðar landbúnaðarafurðir# fsp. (til munnl.) frá landbrh., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjanda Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel að hér sé hreyft mjög þörfu máli. Jafnframt fagna ég því sem fram kom í máli hæstv. landbrh., að hann er tilbúinn að skoða það að auka sveigjanleika í matvælalöggjöfinni því ég hef mikla trú á því að hér sé verið að tala um mjög mikið hagsmunamál fyrir sveitir landsins. Sjálfur hef ég farið víða að undanförnu og heyrt að margir bændur ræða þessi mál, þ.e. að sveigjanleikinn sé allt of lítill. Ég hef trú á því að ef við aukum sveigjanleika í matvælalöggjöfinni þá munum við styrkja sveitir landsins og mér heyrist að menn séu sammála í því.

Við sjáum að mörg samtök bænda og mörg fyrirtæki bænda eru að vinna mjög gott starf í markaðssetningu á landbúnaðarafurðum. Ég get nefnt Fjallalamb á Kópaskeri, Austurlamb og fleiri aðila. Ég tel að við hv. þingmenn ættum að taka höndum saman og auka sveigjanleika í þessari löggjöf sem við höfum rætt hér um.