Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:35:57 (5107)

2004-03-10 14:35:57# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Spurt er: Hvernig eru svokallaðar aukabúgreinar í landbúnaði skilgreindar?

Orðið aukabúgrein kemur hvergi fyrir í íslenskri löggjöf og í íslensku orðabókinni sem gefin var út árið 2002 er þetta orð ekki heldur að finna. Svo flókið er nú málið.

Í almennu tali mun algengasta merking orðsins vera eitthvað sem menn stunda, hafa tekjur af til hliðar við aðalstarf sitt. Það er aukabúgrein. Kannski hafa hv. þingmenn einhverja aukabúgrein og kinkar nú hv. þm. Jón Bjarnason kolli. Bóndi sem hefur mjólkurframleiðslu að aðalstarfi getur haft sauðfjárbúskap eða ferðaþjónustu sem aukabúgrein eða eitthvað annað, t.d. framleiðslu á þeim matvælum sem við vorum að tala um áðan.

Spurt er um hvaða aukabúgreinar njóti styrkja. Um það er að segja að fastar stuðningsgreiðslur eru greiddar í formi beingreiðslna til handhafa greiðslumarks í mjólk og sauðfé svo og til framleiðslu á gúrkum, paprikum og tómötum. Einnig er greiddur stuðningur til bænda sem eru þátttakendur í skógræktarverkefnum, eins og hv. þingmenn þekkja. Það fer svo eftir aðstæðum hjá hverjum og einum hvort framleiðsla á viðfangsefni hans í þessum greinum telst aukabúgrein. Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitir styrki til nýsköpunar í sveitum og þróunarverkefna í landbúnaði, þar á meðal til nýjunga sem talist geta aukabúgreinar, svo sem ferðþjónustu og handverks. Handverk er mikil aukabúgrein í sveitum þessa lands og ber að leggja áherslu á það.

Síðan vil ég segja hér um þá stóru spurningu hvort ráðherra hafi í hyggju að móta skýrari reglur að ég boðaði það við setningu búnaðarþings að ég mundi nú skipa starfshóp til þess að skrifa hina grænu bók landbúnaðarins, stefnumótunarbók landsins, sveitanna, landbúnaðarins til næstu 15 eða 20 ára. Ég tel það við þessar aðstæður mjög brýnt því að tækifæri sveitanna liggja ekki bara í því að styðja við búskap þar sem menn framleiða mjólk og kjöt. Það liggur á mörgum fleiri sviðum. Ég tel þetta mjög mikilvægt verkefni nú því að vissulega sjáum við nýjar sólir í hafi sem kalla á breytingar á stuðningskerfi ekkert síður en að Evrópa er nú að endurskipuleggja allt sitt stuðningskerfi í landbúnaði. Þess vegna, eins og ég sagði í þessari ræðu, er um að gera að vera fyrri til og gera það á sínum forsendum heldur en að láta knýja sig til verka nauðbeygða.

Þessi vinna mun fara í gang núna á næstu dögum þar sem grænbók landbúnaðarins, það stóra verkefni, verður skrifuð. Það má kalla hana hvítbók en ég vil kalla hana grænbók, að vísu ekki vinstri græna en grænbók (JBjarn: Hún gæti nú orðið það.) Já, það gætu komið góðir þættir inn í þá bók úr ágætri tillögu sem þeir hafa lagt hér fram í þinginu, hv. þingmenn. Ég veit að sem betur fer eru allir flokkar og allir þingmenn í þinginu að hugsa hlýtt til sveitanna og landbúnaðarins og auðvitað geta þeir lagt inn í þessa bók skrifaða kafla. Ég held að þessi grænbók verði merkilegasta bók sem skrifuð hefur verið um langa hríð og kannski sú mikilvægasta til að fara yfir þetta sem hv. þm. er að spyrja um, þ.e. hvernig við getum stutt hið mikilvæga og fjölþætta hlutverk landbúnaðarins og sveitanna.

Landbúnaðinum má líkja við stóra eik kannski með 15--20 atvinnugreinum út úr og margar eru nýjar. Við þurfum að beina skólakerfinu okkar inn á þær brautir að veita þekkingu og miðla þekkingu til fólks sem sér ótal mörg ný tækifæri á bújörðum sínum eða í sínum sveitum. Ég held því að það sé best sagt hér, hv. þingmaður, að aukabúgreinarnar séu margar. Það er erfitt að skilgreina þær en gegnum aukabúgreinarnar eða mörg smærri verk í sveitunum liggja gríðarleg tækifæri sem ég vil varpa ljósi á nú til þess að bæði Alþingi og þjóðin sé meðvituð um öll þau atvinnutækifæri. Þetta snýr líka að hinu stóra verkefni ferðaþjónustunni með 700 þús. erlenda ferðamenn eða milljón. Íslendingarnir ferðast meira um land sitt þannig að þetta er til að koma til móts við við þá með þjónustu, afþreyingu og allt það sem við höfum rætt í þessari fyrirspurn og hinni fyrri.