Stuðningur við aukabúgreinar

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:49:37 (5115)

2004-03-10 14:49:37# 130. lþ. 81.4 fundur 696. mál: #A stuðningur við aukabúgreinar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra landbúnaðarmála svörin sem hann gaf áðan og þingmönnum ágætar umræður. Ef ég reyni að draga ályktanir af svörum ráðherra áðan kemst ég að því að ekki er til stuðningskerfi fyrir annars konar atvinnu í sveitum en bara hinar hefðbundnu búgreinar. Það tel ég vera mjög slæmt ekki síst með tilliti til þess sem kom fram í máli ráðherrans og reyndar fleiri þingmanna áðan að við erum að fara í annað umhverfi og við vitum að það þarf að endurskipuleggja stuðningskerfi við sveitirnar og okkur mun því ekki haldast uppi að halda áfram stuðningi við þær á sama hátt og verið hefur hingað til.

Ég verð að hryggja ráðherrann með því að hann verður seint fyrri til en Evrópuþjóðir til þess að endurskipuleggja stuðningskerfi í landbúnaði því að Evrópusambandið kom síðast 2003 með ráðleggingar eða áætlun um hvernig þeir fara að því að endurskipuleggja stuðningskerfi sitt með tilliti til breyttra aðstæðna vegna krafna Alþjóðaviðskiptasambandsins, en hér er undirbúningur fyrst að hefjast. En ég vil leggja áherslu á, frú forseti, að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að stuðningskerfið við sveitirnar sé endurskoðað og aukið meira frjálsræði og tekið tillit til þess að við verðum að breyta greiðslum okkar í grænar greiðslur eða eitthvað í líkingu við það sem Evrópusambandið er að taka upp nú um þessar mundir.