Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 14:57:36 (5118)

2004-03-10 14:57:36# 130. lþ. 81.5 fundur 597. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir beinir til mín eftirfarandi fyrirspurn um lokaða öryggisdeild: ,,Hefur verið tekin ákvörðun um staðsetningu lokaðrar öryggisdeildar, m.a. fyrir geðveika sakhæfa einstaklinga. Ef svo er, hvar verður hún og hvenær má vænta þess að hún verði opnuð?``

Þetta mun vera þriðja fyrirspurnin sem ég svara á þessum vetri um þetta mál og eins og kom fram í svari mínu við svipaðri fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman skömmu fyrir jól, og það svar má lesa í þingtíðindum, skilaði nefnd þriggja manna tillögu til mín á nýliðnu ári um úrræði í málefnum alvarlega geðsjúkra einstaklinga. Meðal tillagna nefndarinnar var það að komið yrði á laggirnar geðdeild sem teldist millistig milli hefðbundinna geðdeilda og réttargeðdeildarinnar á Sogni til að mæta brýnni þörf á vistunarúrræðum fyrir tiltölulega fámennan hóp einstaklinga sem haldnir eru geðsjúkdómum sem erfitt er að meðhöndla og teldust jafnvel hættulegir sjálfum sér og öðrum.

Nefndin gat um ýmsa möguleika á staðsetningu deildarinnar, svo sem staðsetningu í byggingu Landspítala -- háskólasjúkrahúss, í Arnarholti á Kjalarnesi, við Kleppsspítalann í Reykjavík eða nýbyggingu við réttargeðdeildina á Sogni í Ölfusi. Einnig lagði nefndin til að rekstur deildarinnar væri í höndum geðdeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss einkum með það í huga að fela öflugustu geðdeild heilbrigðisþjónustunnar að annast um þennan mjög erfiða málaflokk.

Ég ákvað að fara að tillögu nefndarinnar og fól Landspítala -- háskólasjúkrahúsi að hrinda þessum þætti tillagnanna í framkvæmd og óskaði eftir útfærslu þeirra á því hvernig þeir sæju þetta mál fyrir sér og útfærslu þeirra á tillögunum. Þetta mál hefur tekið lengri tíma en ég vænti á spítalanum og ég vænti þess að svar spítalans berist mér í þessum mánuði en það var ætlun mín að þessi deild tæki til starfa síðla á þessu ári.

Varðandi Arnarholt er það rétt að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús hefur verið með starfsemina þar til skoðunar og hún er nú til skoðunar í sérstökum starfshópi sem er skipaður fulltrúum félmrn. og heilbrrn. og sú athugun er auðvitað einn þátturinn í þessu máli en staða þess er í rauninni óbreytt frá því að ég svaraði fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman rétt fyrir jól en áður hafði ég svarað fyrirspurninni sem hv. þm. vitnaði til.