Lokuð öryggisdeild

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:01:05 (5119)

2004-03-10 15:01:05# 130. lþ. 81.5 fundur 597. mál: #A lokuð öryggisdeild# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, fyrir spurninguna sem hún lagði fram. Það er ekkert nýtt að hv. þm. spyrji um þennan málaflokk því hún hefur verið ötull baráttumaður þeirra skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins sem hér um ræðir.

Það er ekki undarlegt að óskað sé svara frá hæstv. ráðherra aftur og aftur í málinu því ég held að lykilatriðið í þessu sé einmitt það sem hæstv. ráðherra sagði sjálfur. Það er brýnt að mæta brýnni þörf, og ef það er brýnt að mæta brýnni þörf hlýtur einnig að vera brýnt að fara að taka ákvörðun í málinu og það dragist ekki vikum og mánuðum saman. Við héldum, miðað við þau svör sem við höfum áður fengið frá hæstv. ráðherra, að deildin færi á Arnarholt. Eftir heimsókn þangað gerðum við okkur grein fyrir því að það mun ekki verða. Því hljótum við að spyrja og ganga eftir svörum frá hæstv. ráðherra: Hvenær verður þessi ákvörðun tekin? Getum við ekki farið að búast við endanlegu svari fljótlega?