Húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 15:14:29 (5126)

2004-03-10 15:14:29# 130. lþ. 81.6 fundur 598. mál: #A húsnæði réttargeðdeildarinnar að Sogni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Hér hefur verið hreyft spurningunni um viðhald húsnæðis réttargeðdeildarinnar á Sogni, eðlilega, þar sem fyrir liggja athugasemdir frá heilbrigðiseftirliti svæðisins um það hvernig húsið lítur út.

Við vitum öll að víða um land er verulegur skortur á viðhaldi á opinberum byggingum og ekki síst byggingum í heilbrigðisgeiranum. Við hljótum að þurfa að fara að vinna að því saman að reyna að breyta þeirri hugsun að hægt sé að trassa viðhald. Ríkið á stórar og miklar eignir, mikil verðmæti í húseignum vítt og breitt um landið, og með því að trassa viðhald erum við einfaldlega að fresta því að þurfa að greiða það sem þarf til að gera við þessi hús og með því að fresta því munum við, þegar upp er staðið, þurfa að greiða talsvert mikið meira en ef við mundum ráðast strax í þetta viðhald. Þarna þurfum við því öll að taka höndum saman og breyta þessari hugsun. Viðhaldsfé er ekki fé sem við eyðum til einskis.